Navigation Menu+

Íslenskar hrollvekjur

Posted on Feb 18, 2013 by in Fréttir | 0 comments

Horror House Wallpapers 1

Við Íslendingar eigum okkur langa bókmenntahefð, þó svo útgáfustarfsemi sem slík sé ekki ýkja gamalt fyrirbæri hérlendis. Og hrollvekjur hafa löngum verið sagðar hérlendis, enda skemmtileg bókmenntagrein. Við höfum frásagnir í Íslendingasögum sem eru af yfirskilvitlegum og hryllilegum atburðum, t.d. á borð við Fróðárundrin í Eyrbyggju. Þjóðsögur fjalla auk þess margar um þjóðsagnakenndar verur, á borð við drauga og uppvakninga, nykra og umskiptinga, og flokka mætti margar slíkar sögur sem hrollvekjandi. Á 20. öld hefur hrollvekjan svo sem ekki farið hátt í íslenskum bókmenntum og fæstir sem hafa tileinkað sér að skrifa þess háttar bókmenntir, ekkert frekar en þeir sem hafa tileinkað sér að skrifa fantasíur eða vísindaskáldsögur.

Nútímahrollvekjuna má rekja til gotneskra bókmennta. Talið er að fyrsta alvöru gotneska sagan hafi verið Castle of Otranto eftir Horace Walpole sem kom út 1764. Í kjölfar hennar fylgdu margar áþekkar sögur, t.d. The Monk eftir Lewis og Mysteries of Udolpho eftir Ann Radcliffe. Í gotneskum bókmenntum var oft hið forboðna kannað, hvort sem það var forboðin ást eða svartigaldur, sem og hið yfirskilvitlega. Komu fram svipaðar bókmenntir víða um Evrópu á þessum tíma og voru slíkar sögur kallaðar Schauerroman (hryllingssögur) í Þýskalandi, svo dæmi sé tekið. The Monk hafði sérstaklega mikil áhrif á nútímahrollvekjuna, enda fjallar sagan um sadíska munka, afturgengnar nunnur og forboðnar ástir. Mikið af gotneskum bókum og hryllingssögum voru skrifaðar af kvenkyns rithöfundum og voru markaðssett fyrir þær.

Hrollvekjur sem komu fram á 19. öld sóttu mjög til gotneskra bókmennta. Á þeirri öld komu fram þrjár stærstu hrollvekjurnar, þ.e. Drakúla eftir Bram Stoker, Frankenstein eftir Mary Shelley og Dr. Jekyll og Mr. Hyde eftir Robert L. Stevenson. Enn er verið að gefa þessar sögur út, Drakúla er t.a.m. sú skáldsaga sem hefur hvað oftast verið endurprentuð. Ásamt þessum höfundum kom Edgar Allan Poe fram á sjónarsviðið og höfðu smásögur hans gríðarleg áhrif. Á 20. öld hafa margir höfundar komið fram, m.a. H. P. Lovecraft, M. R. James, Stephen King, Clive Barker og Shirley Jackson.

Nútímahrollvekjan sækir enn mjög í það form sem henni var sniðið strax á 18. öld. Hrollvekjum er ætlað að vekja ugg eða hroll með lesendum sínum, þar er skapað andrúmsloft furða og undra. Hið hryllilega getur verið bæði af þessum heimi eða yfirskilvitlegt. Ann Radcliffe skilgreindi hrollvekjur í byrjun 19. aldar og sagði m.a. að hryllingssögur þyrftu að vera annað hvort að vekja með lesanda sínum ugg eða ótta, eða hroll. Nema hvort tveggja sé. Uggur getur snúið að því að lesandinn óttast um þá atburði sem á eftir koma eða framundan eru. Hrollur getur komið fram vegna viðbjóðs eða viðurstyggðar á þeim atburðum sem hafa gerst. Þannig eru sumar hrollvekjur afar uggvekjandi og maður nagar neglur af eftirvæntingu um það sem gæti hent aðalpersónur, á meðan aðrar vekja með manni óhug vegna þeirra atburða sem hafa gerst. Dæmi um sögur sem falla í fyrri flokkinn er Ég man þig eftir Yrsu, en margar sagna Clive Barker fjalla í þann seinni. Sögur sem nota hvoru tveggja eru mýmargar, t.d. eftir Stephen King.

Íslenskar hrollvekjur eru ekki margar. Þær hafa flestar komið fram á síðari hluta 20. aldar. Vissulega má finna ákveða gotneska þætti í ýmsum sögum, t.d. í skáldsögu Gunnar Gunnarssonar Sælir eru einfaldir. Drakúla var þýdd lauslega í byrjun 20. aldar, kom þá út undir heitinu Makt myrkanna, en þýðingin var endurútgefin á síðasta ári. Flestar hryllingssögur sem hafa verið gefnar út hérlendis hafa þó verið smásögur, sögur eftir höfunda á borð við Þóri Bergsson, Þórberg Þórðarson og Ástu Sigurðardóttur. Þær hrollvekjur hafa þó verið nokkuð íslenskar, þ.e.a.s. að sótt er í íslenskan raunveruleika í bland við íslenskar þjóðsögur. Þannig fjalla margar þær hryllingssögur sem fram koma á 20. öld um þekkt minni í íslenskum bókmenntum, t.d. drauga.

Á 21. öld fara að koma fram rithöfundar sem opna nokkuð form íslenskra hryllingssagna. Sagan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson kom út snemma á öldinni og Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur nokkrum árum síðar. Börnin í Húmdölum sækja í brunn Lovecrafts, þar sem óvætturin er framandlegur, ekki af þessum heimi og óskiljanlegur. Í sögu Yrsu er frekar sótt í íslensku hefðina. Hið sama má segja um Hálendi Steinars Braga og margar smásögurnar í safninu Myrkfælni. Eins eru margar sögurnar sem birtust í tímaritinu Furðusögum í ritstjórn Alexanders Dans skrifaðar undir áhrifum frá þessum íslenska skóla, ef svo mætti kalla.

Hrollvekjan er í sókn hérlendis og verður spennandi að sjá hvernig hún þróast á næstu árum. Við munum halda áfram að vinna að því að koma þeim á framfæri, ásamt vísindaskáldsögum og fantasíum.

 

(Hlekkur á mynd.)

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>