Navigation Menu+

Gæðablóð

Posted on Dec 3, 2013 by in Fréttir | 0 comments

Annex - Lugosi, Bela (Dracula)_04

Kæri vinur,

Vér erum nýbúar í yðar fagra landi, hvaðan vér kunnum ættir vorar að rekja. Þér Íslendingar, hverjir af göfugu kyni norrænna berserkja eruð af komnir, eruð í senn gestrisnir og góðir heim að sækja, þér hafið tekið á móti oss opnum örmum og kunnum vér yður góðar þakkir að færa. Sérstaklega viljum vér hrósa framtaksemi yðar og hugkvæmni, þér hafið augljóslega skipulagt komu vora vel og lagt nótt við nýtan dag við undirbúninginn. Ef satt skal segja, þá höfum vér hvergi áður mætt svo höfðinglegum móttökum sem hér og þykir oss mikið til koma. Að stór hluti yðar blóðríku þjóðar skuli leggja sig fram um að auðvelda oss transilvanískum aðalsmönnum komu vora hingað út og safna bragðgóðu blóði yðar í svokallaða blóðbanka er fáheyrt. Þetta er hið sniðugasta framtak og hefur auðveldað oss mjög dvölina í yðar annars fjöllum prýdda landi.

Auk þess heldur hefur téður blóðbanki útbúið eldsneytisknúna sjálfrennireið, mikla og rauða, sem oss skilst að sé notuð í heimsendingar á blóði og í söfnun þess. Þetta mættu þegnar vorir taka upp, svo vér þyrftum ei að knýja dyra hjá þeim og valda ónæði á myrkum náttum, oss skilst að margir þegnar vorir taki það heldur óstinnt upp að vér sláum eign vorri á ómálga börn þeirra og færum brúðum vorum. En transilvanískir bændur eru óupplýstur lýður sem hugnast best að vera leiddur áfram af styrkum höndum, sem og oss hefur verið falið. Þér Íslendingar eruð hins vegar göfugir og um æðar yðar rennur blóð hetja og landvinningamanna og þér hvikið hvergi frá því að leyfa öðrum að njóta þess með yður. Það er og vel.

Vér viljum því hvetja yður til þessara góðu verka. Farið fram, göfugu Íslendinga, og leggið blóð yðar í bankann, þar sem vér getum tekið það út. Vér viljum jú síður ónáða yður seint að kvöldi til, þar sem þér lesið hetjukvæði af skinnbókum eða strokkið smjör, þar sem vér vitum að þér Íslendingar eigið yður langa sögu drauga og afturganga. Nei, það væri ósvífið af oss að trufla yður með þeim hætti, þá þér hafið séð svo hugvitsamlega fyrir því að safna góðu, sterku blóði yðar svo vér, af ætt Drakúla, getum bergt á gnægðum þess.

Verið því vinsamlegir og smellið hér með rafmúsum yðar á þessa vefsíðukrækju, er vér höfum látið hér með fylgja, yður til hagræðingar. Vér viljum um leið þakka yður hjartsamlega fyrir þessa fórnfúsu gjöf yðar. Munið að blóðgjöf getur bjargað mannslífum, vér viljum síður lenda í sömu vandræðum hér á landi og hentu oss í Lundúnum fyrir nokkrum árum og tíundaðar voru af illmennum og fautum þeim er í vegi vorum stóðu í bóksnift einni og kom út skömmu eftir heimför vora.

Ávallt og að eilífu yður kæri vinur,
Drakúla.

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>