Navigation Menu+

Notendur og afritunarvarnir

Posted on Feb 19, 2013 by in Fréttir, Hugleiðingar | 0 comments

runatyr6

Ljóst er að umræða um notendur og afritunarvarnir er langt frá því til lykta leidd. Í gær fór fram ansi áhugaverð umræða á Facebooksíðu Rafbókavefsins um streymislausn Rafbókalagersins. Í stuttu máli gengur hugmyndin út á að notendur geti skráð sig inn á heimasíðu og keypt sér aðgang að bókum, sem þeir lesa síðan í vafra. Þessi lausn hentar vel þeim sem eru með spjaldtölvur, snjallsíma eða finnst gott að lesa af skjám borðtölva. Hugmyndin reiðir sig á að notandi sé nettengdur en þó gaf Egill, framkvæmdastjóri Forlagsins, því undir fótinn að verið væri að vinna að lausn sem vistar hluta efnisins í minni vafrans, þannig að þörfin á nettengingu væri ekki alger. Þessi hugmynd er um margt góð og ber að hrósa Forlaginu fyrir framtakssemina og áhugann sem þeir sýna rafbókum. Sá galli er þó á gjöf Njarðar, að þessi lausn hentar ekki fyrir notendur Kindle Wifi og eldri gerða Kindle, sem og að notendur eiga þannig séð ekki bækurnar og geta ekki skipst á bókum. Vonandi verður þó hægt að finna lausn á því.

Nokkuð margir notendur höfðu áhyggjur af nálgun forsvarsmanna Forlagsins og Rafbókalagersins að Kindle lesbrettinu og notendum þess. Var nokkuð rætt um hvers vegna Rafbókalagerinn styður ekki mobi skráarsniðið, þar sem margar rafbókaverslanir hérlendis gera það (emma.is, skinna.is og rafbokavefur.is). Því var svarað með því að ekki væri hægt að afritunarverja slíkar rafbækur, nema með félagslegri afritunarvörn, eins og Marínó, forsvarsmaður Rafbókalagersins komst að orði. Vildi hann meina að útgefendur treystu ekki slíkri afritunarvörn.Við getum ekki svarað fyrir aðrar útgáfur en okkar eigin, en við teljum að mikilvægast að notendur séu sáttir og eigi auðvelt með að nálgast rafbókina á þeim lesbrettum sem þeir kjósa að nota.

Við hjá Rúnatý lítum svo á, að afritunarvörn sé fyrst og fremst hugsuð fyrir útgefendur, svo við sofum betur á næturnar, þannig skapa þær ákveðna öryggiskennd hjá okkur. Ef við skoðum þær afritunarvarnir sem notaðar eru hérlendis þá eru þær eftirfarandi:

  • Rafbókavefur.is notast ekki við afritunarvörn.
  • Emma.is notast ekki við afritunarvörn, treystir viðskiptavinum sínum fyrir því að dreifa ekki verkum ólöglega.
  • Skinna.is notast við félagslega afritunarvörn, þ.e. hver rafbók er merkt kaupanda sínum og viðkomandi er treyst fyrir því að dreifa ekki verkunum ólöglega. Einnig notast Skinna.is við þá afritunarvörn sem fylgir rafbókum af vef Rafbókalagersins, Adobe DRM, og þurfa notendur að hafa aðgang að Adobe ID.
  • Ebækur.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.
  • Eymundsson.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.
  • Forlagid.is notast við sömu afritunarvörn og Rafbókalagerinn.

Adobe DRM kallar á að settur sé upp sérstakur vefþjónn, sem kostar nokkur þúsund dollara auk árlegs gjalds, sem er um fjórðungur af upphaflegum kostnaði. Fyrir hvert niðurhal þarf síðan útgefandi að greiða nokkur sent. Við höfum ekki fengið reikning vegna félagslegrar afritunarvarnar Skinna.is en reiknum með að sá kostnaður sé hluti af álagningu þeirra. Eðli málsins samkvæmt kostar engin afritunarvörn Emma.is ekkert. Hjá Skinna.is er óverulegt skráningargjald, en ekkert hjá Emma.is, hins vegar munar lítillega á álagningu þessara aðila og þar er Skinna.is lægri. Hvað varðar skráningargjöld og kostnað hjá Rafbókalagernum, þá erum við ekki í viðskiptum við þá, þannig við getum ekki fjölyrt um þann kostnað. Hugsanlega getur einhver frætt okkur um það?

Félagslega afritunarvörnin er vatnsmerki. Hver sá sem kann að slá inn leitarorð í leitarvélar og hefur grunnþekkingu á tölvum og uppsetningu hugbúnaðar á þær (sem sagt, getur smellt á Accept o.s.frv.) getur auðveldlega fjarlægt nokkurn veginn hvaða afritunarvörn sem er. Það gildir um Adobe DRM, auðvelt er að finna hugbúnað sem fjarlægir afritunarvörnina, og á við um allar afritunarvarnir, líka þær sem eru á skjölum frá Amazon. Gallinn við afritunarvarnir er nefnilega sá, að fyrir suma virka þær bara eins og krefjandi heimaverkefni í skóla, þeim finnst þeir þurfa að dírka upp lásinn og búa til hugbúnað sem getur gert það. Sumar afritunarvarnir miðast auk þess við að þú notir ákveðinn hugbúnað til að lesa viðkomandi skjal, t.d. er ekki hægt að opna bækur varðar með Adobe ID í Kindle og iBooks. Bækur varðar með Amazon afritunarvörninni er bara hægt að opna í Kindle og svo mætti áfram lengi telja. Þannig eru notendur skikkaðir til að nota ákveðinn hugbúnað umfram að þeir kjósi sjálfir hvaða tæki eða hugbúnað þeir noti. Afritunarvörnin skapar hugsanlega þannig óþægindi hjá notendum.

Ef afritunarvarnir er hægt að fjarlægja með auðveldum hætti, hvað geta þá útgefendur gert? Í raun ósköp lítið. Þegar við setjum nýja bók á markað þá treystum við því að hún sé ekki ljósrituð og henni dreift þannig til fólks. Setjum jafnvel yfirlýsingu um að slíkt sé bannað nema með leyfi höfundar eða útgefanda á fyrstu síðurnar. Að öðru leyti treystum við lesendum. Við getum ekki fylgst með öllum sem kaupa bækurnar okkar, getum ekki séð til þess síður bóka séu ekki ljósritaðar. Hins vegar, líklega vegna þeirrar umræðu sem hefur verið um ólöglega dreifingu hugverka, vilja margar útgáfur, skiljanlega, koma í veg fyrir ólöglega dreifingu á rafbókum þeirra. Ef allt fer á versta veg, þá getur ólögleg dreifing kostað útgáfur umtalsverða fjármuni og því er ekkert óeðlilegt við að þær leiði hugann að og hafi áhyggjur af þessu vandamáli.

Við hjá Rúnatý erum í sömu sporum og margar útgáfur hvað þetta varðar. Við höfum þó reynt að gera okkar besta til að treysta notendum. Við teljum Íslendinga upp til hópa heiðarlega og trúum því að unnendur íslenskra bókmennta vilji efla veg þeirra, að höfundar fái greitt fyrir vinnu sína og að íslenskar útgáfur hafi starfsgrundvöll. Við höfum engu að síður áhyggjur af því að titlunum frá okkur sé dreift ólöglega, en vonum að gott verð og auðvelt aðgengi sporni gegn því.

Íslenskar útgáfur nálgast þetta vandamál hver með sínum hætti. Sum forlög selja bæði bækur með og án afritunarvarna, önnur bara án afritunarvarna og enn önnur aðeins með afritunarvörnum. Aðeins íslenskir notendur geta dæmt til um hvað hentar þeim best, við í útgáfugeiranum getum skipst á skoðunum út í hið óendanlega án þess að komast að niðurstöðu. Þannig er reynsla okkar hjá Rúnatý sú, að ef við værum með stífar afritunarvarnir, þá hefðum við líklega misst af um helming allrar sölu á rafbókum okkar. Eins og gefur að skilja, þá viljum við ekki fórna því, enda lítið forlag og hvert selt eintak skiptir okkur máli. Hvað finnst þér skipta máli? Hvernig telur þú að hægt sé að tryggja bæði útgefendur og notendur séu sáttir?

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>