Navigation Menu+

Skáldskapur er aldrei pólitískt réttur

Posted on Feb 18, 2013 by in Fréttir, Hugleiðingar | 0 comments

science-fiction_mining_pic

Þegar fyrstu skáldsögurnar komu út voru það fyrst og fremst afbakanir og satýrur á riddarasögur fyrri alda. Cervantes skrifaði t.d. Don Kíkóta í þeim anda. Skáldsögur hafa síðan þá þróast og dafnað, en þetta einkenni sem rekja má til upphafs skáldsagna má enn finna í nútímaskáldsögum, þó svo kannski ekki á sama hátt og í sögu Cervantes.

Þó vissulega megi finna skáldsögur sem afbaka skáldskap fyrri tíma, sögur á borð við Gerplu eftir Halldór Kiljan Laxness, þá birtist þessi afbökun á annan hátt í nútímanum og hugsanlega má rekja hluta þess til raunsæisstefnunnar. Þeir rithöfundar sem einna helst skrifuðu undir merkjum hennar litu margir hverjir á sig sem nokkurs konar lækna samfélagsins, þ.e. þeir bentu á þau mein sem þar er að finna. Margir höfundar skrifa í dag með þetta í huga, t.d. mætti lesa skandinavísku spennusögurnar út frá samfélagsrýni þeirra. Þannig getur skáldskapur opnað augu lesenda fyrir misrétti, hinu óréttláta og því sem er ekki í lagi, hvort sem um samskipti manna, viðmið samfélags eða hvaða annað er að ræða.

Oft hefur verið reynt að setja skáldskapnum skorður, oftar en ekki fyrir þær sakir sem hér að ofan eru nefndar. Yfirvöld, gagnrýnendur og allir þeir sem láta sig mál varða líkar oft ekki við hversu hreinskilinn og gagnrýninn skáldskapur getur verið. Þannig voru ákveðnir rithöfundar fangelsaðir í Sovétríkjunum á sínum tíma. Málið er bara, að skáldskapur er aldrei pólitískt réttur og má aldrei verða það. Alvöru rithöfundar láta ekki yfirvöld eða aðra þá sem gagnrýna þá halda aftur af sér, heldur halda áfram vegna þeirrar knýjandi þarfar að segja sögur.

It is impossible to discourage the real writers – they don’t give a damn what you say, they’re going to write. ~Sinclair Lewis

Ódysseifur eftir James Joyce er gott dæmi um svona sögu. Sagan sem kallast á við Ódysseifskviðu Hómers segir frá Leopold Bloom í Dublin og deginum sem hann fer á sitt fyrsta stefnumót með konunni sem hann giftist síðar. Í sögunni segir frá ýmsu sem er langt frá því upphafið enda kom á daginn að sagan var bönnuð í bæði Bretlandi og Bandaríkjunum, þar sem hún þótti of klámfengin. Sagan varð síðar meir leyfð og í dag held ég að fáir neiti því að Ódysseifur Joyce sé eitt af stórverkum 20. aldar.

Þetta á við um furðusögur sem annan skáldskap. Mikilvægi þess fyrir rithöfunda að vera trúir sjálfum sér, hafa trú á því sem þeir eru að gera og láta ekki hneppa hugsun sína í fjötra tísku, pólítísks rétttrúnaðar eða annarra viðmiða en sinna eigin er algjört. Um leið og þeir fara eltast við það sem yfirvöld, gagnrýnendur eða aðrir segja, þá er hættan sú að þeir séu í raun að berjast við vindmyllur.

 

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>