Navigation Menu+

Mörk skáldskapar

Posted on Feb 18, 2013 by in Fréttir | 0 comments

tentacles-science-fiction-HD-Wallpapers

Í umfjöllun um nýútkomna bók Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000°, hefur verið bent á að nær allir þeir atburði sem gerast í sögunni eigi sér stoð í raunveruleikanum. Hið eina sem ekki sem ekki sé í raun sagnfræði er annars vegar nafn aðalpersónunnar og feðrun annarrar persónu, en jafnvel allar aukapersónur bera sama nafn og í raunveruleikanum. Ekki er langt síðan svipuð bók kom út, Enn er morgun, eftir Böðvar Guðmundsson en sú skáldsaga var byggð á ævi fyrrverandi eiginkonu hans, Helgu Kress. Báðar sögurnar eru ágætlega stílaðar og er ekki markmiðið að gagnrýna þær sérstaklega eða skoða.

Það sem óneitanlega kemur hins vegar upp í hugann er hvar mörk skáldskaparins liggja. Nægir að höfundur kalli verk sitt skáldsögu? Er nóg að breyta einu, tveimur nöfnum?

Í bandarískum kvikmyndum er hefðin sú að láta áhorfendur vita í upphafi að saga tiltekinna kvikmynda er byggð á sönnum atburðum. Ættu rithöfundar að gera slíkt hið sama eða myndi það draga úr listinni?

Við Íslendingar eigum okkur langa hefð ritunar samtíma- og ættarsagna. Í raun höfum við verið að segja slíkar sögur allt frá landnámi og þegar við tökum að skrifa sögur á skinn þá eru þær sem eru helst skráðar. Við höfum Íslendingasögurnar, sögur af biskupum og samtímasögur. Hugmyndir okkar um Sturlungaöldina væru líklega mjög ólíkar þeim sem við höfum í dag ef ekki væri fyrir Íslendingasögu Sturlu Þórðarssonar. Þegar líða tók á seinni hluta þess tímabils þegar verið var að skrifa Íslendingasögur fóru ritarar smátt og smátt að skálda meira og hefur verið sýnt fram á að töluverð skáldskaparhneigð sé að finna í t.d. Grettlu og Hávarðar sögu Ísfirðings. Sem sagt, skáldskapur var orðinn hluti af sögunum og fyrir vikið lítum við örlítið öðrum augum á þær sögur sem voru skrifaðar á þeim tíma.

Sögulegar skáldsögur hafa verið skrifaðar alla 20. öld, þar sem stuðst er við sögulega atburði, t.d. hafa Einar Kárason og Ólafur Gunnarsson báðar skrifað frábærar þess háttar sögur. Einar Már hefur skrifað sögu fjölskyldu sinnar í nokkrum bókum, þar ríst eflaust hæst Englar alheimsins, þar sem hann nýtir þekkta atburði og skáldar í kringum þá. Mörkin er því ekki ljós, hvar skáldskapurinn hefst og sagnfræðinni lýkur. Hins vegar hljótum við að staldra við þegar hið skáldlega er gott sem þurrkað út en þó er viðkomandi verk kynnt sem skáldsaga. Er verið að ögra lesendum eða vernda þá sem fjallað er um í bókinni? Myndum við kalla ljósmynd sem búið væri að mála lítið gult strik í eitt horn málverk?

Líklega skiptir þetta lesendur ekki öllu máli hvort útgefendur flokki eitthvað verk með ákveðnum hætti svo lengi sem þeir hafa gaman af lestrinum.

 

(Hlekkur á mynd.)

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>