Navigation Menu+

Bækurnar okkar

Rafbækur Rúnatýs er fjölmargar og verða til sölu á vefnum Skinna.is og Emma.is. Verði hefur verið stillt í hóf og bjóðum við bæði upp á skáldsögur, smásagnasöfn og smásögur. Er það stefna okkar að bjóða upp á genre bókmenntir; hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur. Verður áfram hægt að nálgast bókarkafla og frítt efni hér á síðunni. Hér er listinn yfir bækurnar okkur í engri sérstakri röð.

Myrkfælni – smásagnasafn
Myrkfælni – smásögur var fyrsta bók Rúnatýs. Safnið, sem rithöfundurinn Þorsteinn Mar skrifaði, inniheldur 11 hrollvekjandi smásögur. Myrkfælni kom út vorið 2011 og fékk ágætar viðtökur, þrjár stjörnur og Þorsteinn sagður efnilegur höfundur. Lesendur rekast á ýmsar furður og fólk, jafnt úr fortíð sem nútíð. Sumt má útskýra, annað ekki. Draugar og hvers kyns óvættir birtast mönnum, leiða þá á villgötur og vekja óhug. Þorsteinn Mar er 33 ára gamall. Hann er menntaður íslenskufræðingur og kennari og starfaði sem slíkur um nokkurt skeið. Undanfarin ár hefur hann hins vegar sinnt starfi vefstjóra hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni.

Hylur – smásaga
Sagan Hylur er eftir Kjartan Yngva Björnsson og segir frá manni sem þarf að fást við eigið sjálf og minni. Hann leitar inn í annan heim til að komast í snertingu við minningar sem hann hefur grafið djúpt í hugskotum sínum. Er sagan í senn táknræn og spennandi. Kjartan Yngvi er 28 ára gamall, menntaður í bókmenntafræði og nemur nú ritlist í Háskóla Íslands.

Milli þils og veggjar – smásaga
Ungur maður ræður sig til starfa sem beykir hjá kaupmanni í afskekktu þorpi á Vestfjörðum. Hann kemur um vetur og lendir í undarlegum atburðum, sem eiga eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Hann heyrir sögu kaupmannsins og finnur að ekki eru allir íbúar í kaupmannshúsunum meðal tölu lifenda. Sagan er eftir Þorstein Mar og má finna í safninu Myrkfælni. Milli þils og veggjar varð í 3. sæti í hrollvekjusamkeppni Glæpasagnafélagsins á sínum tíma.

Kall Cthulhu - smásaga
Kall Cthulhu er ein þekktasta smásaga rithöfundarins H. P. Lovecraft, sem er af mörgum talinn forvígismaður furðusagna eða wierd-fiction í bókmenntum. Í sögunni segir frá manni einum sem tekur við dánarbúi frænda síns og uppgötvar að hann hefur verið að rannsaka undarlegan sértrúarsöfnuð. Eftir því sem á rannsóknina líður tekur manninn að gruna að dauða frænda síns hafi borið að með vafasömum hætti. Lovecraft hafði mikil áhrif á samtímarithöfunda og voru höfundar á borð við Robert E. Howard (höfundur Conan) og Clark Ashton-Smith í rithring ásamt Lovecraft. Hafa margar sögur verið skrifaðar um það sem kalla má Cthulhu-óvættina (Cthulhu-mythos).

Epli Iðunnar – smásaga
Í sögunni Epli Iðunnar segir frá tveimur rannsakendum frá Fimbulljóðum, sem er nokkurs konar leynilögregla. Rannsakendurnir þurfa að fást við undarlega atburði og ekki er allt sem sýnist. Sagan, sem sækir mikið í brunn norrænnar goðafræði eins og nafnið gefur til kynna, er það sem mætti kalla urban-fantasía. Frásögnin er spennandi og heldur lesanda vel við efnið. Jóhann Þórsson er höfundur hennar. Jóhann er 33 ára gamall og starfar í dag við markaðssetningu á netinu fyrir fyrirtækið Dohop.

Þoka – skáldsaga
Skömmu eftir áramót snemma á 9. áratugnum finnst mannlaust skip á Faxaflóa. Enginn veit hvaðan það kom, hvers lenskt það er eða hvernig það endaði við Íslandsstrendur. Eftir að Landhelgisgæslan hefur dregið skipið til hafnar er því komið í hendurnar á lögreglu til frekari rannsókna þar sem auðsýnilegt er að eitthvað slæmt hefur gerst um borð. Upp frá því hefst hrina hryllilegra morða í Reykjavík og undarleg þoka leggst yfir borgina við Sundin. Nokkrir fræðimenn eru kallaðir til aðstoðar en tekst þeim að komast að því hver morðinginn er? Skáldsagan er eftir Þorstein Mar.

Dýrið – smásaga
Manneskjan er, þegar allt kemur til alls, lítið annað en dýr. Við höfum talið okkur trú um að fyrir sakir samfélags, viðmiða og gilda séum við hafin yfir dýr merkurinnar og getum því litið niður á hegðun þeirra, sem stýrist aðallega af hvötum, áreiti og eðlisávísun. Dag einn komst Eva í kynni við dýrið í sér og þrátt fyrir að það hafi að lokum komið henni á bak við lás og slá, þá frelsaði dýrið í Evu hana engu að síður. Sagan er eftir Þorstein Mar og má finna í safninu Myrkfælni.

 

Hinir guðirnir & Kettirnir frá Ulthar - smásögur
Í þessum sögum eftir H. P. Lovecraft segir frá ólíkum atburðum, sem gerast í hinum svokölluðu Draumlöndum. Lovecraft, sem var undir miklum áhrifum frá Lord Dunsany á þessum tíma, bjó sér til heim sem mætti segja að hafi verið einhvers konar forsöguleg jörð. Má sjá tengsl milli sagna sem hann skrifaði á þessum tíma við rit Robert E. Howard og Clark Ashton-Smith, þá sérstaklega Hyperboria löndin. Í þessum sögum kemur sama persónan við sögu, presturinn Atal, en hann birtist í fleiri sögum Lovecrafts sem gerast í þessum heimi.

Einar – smásaga
Í afskekktu býli inn í Kerlingardal bjó Einar, illa liðinn einsetukarl. Eftir eldgos þar skammt frá er unglingspiltur sendur til að athuga hvernig Einari ríður af. Sú ferð á eftir að hafa dramatísk áhrif á hann og fleiri þar úr sveitinni. Sagan varð á sínum tíma í 2. sæti í hrollvekjusamkeppni Rithrings.is. Þorsteinn Mar er höfundur sögunnar og má finna hana í safninu Myrkfælni.

Ferming – smásaga
Hér segir af Vali, sem eina kvöldstund tekur að sér að aka með útlending um Reykjavík. Hann veit lítið um farþega sinn í fyrstu, annað en að hann þarf að heimsækja nokkur fjármálafyrirtæki. Eftir því sem líður á bílferðina, þá lærir Valur sífellt meira um útlendinginn og kemst að raun um að sumt er betra að vita ekki. Jóhann Þórsson er höfundur sögunnar, en sögur eftir hann hafa verið að birtast í ólíkum tímaritum á undanförnum misserum. Sagan er, líkt og Epli Iðunnar, nokkurs konar urban-fantasía en þó með öllu dekkri undirtóni og hryllilegri en sú saga.

Svefnfriður – smásaga
Atvinnulaus kennari fær tímabundna stöðu á Skagaströnd. Sveitarfélagið útvegar kennaranum húsnæði þar í þorpinu. Kennarinn upplifir þó að ekki sé allt með felldu í húsinu og eftirgrennslan leiðir í ljós að saga hússins er nokkuð sérstök. Henni veitist þó erfitt að fá svefnfrið á nóttum en ekki er allt eins og það sýnist við fyrstu sýn. Hér er um að ræða klassíska draugasögu eftir Þorstein Mar. Sagan birtist í safninu Myrkfælni.

Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur – smásagnasafn
H. P. Lovecraft er einn af áhrifamestu höfundum hryllingsbókmennta samtímans. Eftir hann liggja fjölmargar smásögur og nóvellur. Í þessu safni er reynt að gefa mynd af höfundarverki hans. Í safninu má finna sögurnar Vitnisburður Randolps Carters, Hinir guðirnir, Kettirnir í Ulthar, Kall Cthulhu og Við hugarfársins fjöll. Safnið kemur út á prenti vorið 2012 í þýðingu Þorsteins Mars.

Mýsnar í kjallaranum – smásaga
Sumir draumar eru raunverulegri en aðrir. Dag einn heyra tveir meistaranemar í sálfræði undarlega frásögn ungrar stúdínu, sem vekur mikinn áhuga hjá þeim. Þeir eru að skrifa um draumsvefn og ákveða að gera athugun á sjálfum sér með ófyrirséðum afleiðingum, því suma drauma viltu helst ekki dreyma. Sagan er eftir Þorstein Mar og má finna hana í smásagnasafninu Myrkfælni.

Myrkfælni – smásaga
Sálfræðingur, sem dæmdur hefur verið fyrir að valda sjúklingi sínum varanlegu líkamstjóni, segir sögu sína. Fjallar viðkomandi sérstaklega um þennan sjúkling og myrkfælnina sem hrjáði hann. Sögu sem er sálfræðinginum svo erfið að hann sefur nú með ljósin kveikt, því hann veit hvað býr í myrkrinu. Höfundur sögunnar er Þorsteinn Mar og birtist hún í samnefndu safni.

 

Óvætturin – smásaga
Sölumaður verður veðurtepptur á afskekktum bæ á Barðaströnd. Heimamenn eru nokkuð sérstakir, fálátir og virðast lítinn áhuga sýna honum. Sölumanni reynir að líta framhjá framandleika heimamanna, sem og hversu undarlegur kvöldverður er reiddur fram. Um nóttina gerast hins vegar æsilegir atburðir, nokkuð sem sölumaðurinn á eftir að gleyma seint. Hvað býr undir fjárhúsunum? Sagan er eftir Þorstein Mar og birtist í smásagnasafninu Myrkfælni.

Vitnisburður Randolphs Carters – smásaga
Tveir vinir fara á vit ævintýra eitt kvöld. Báðir hafa þeir áhuga á hinu forboðna og framandlega og leita uppi fornan kirkjugarð í feni skammt frá heimabæ þeirra. Aðeins annar þeirra snýr aftur og er sakaður um að hafa komið hinum fyrir kattarnef. Vitnisburður Randolps Carters er eftir H. P. Lovecraft og er af Poeíska tímabili hans, skrifuð í kringum 1920. Sagan er í senn spennandi en líka ágætur vitnisburður um það sem koma skyldi í skáldskap Lovecrafts.

Marbendill – smásaga
Stúdent kemur til Reykjavíkur til að náms í Háskóla Íslands. Eitthvað fer námið fyrir ofan garð og neðan vegna djammlífis hans. Eina nótt dreymir hann þó heimahagana og finnst sem þeir kalli til sín. Þá verður honum enn ljósar hverrar ættar hann er og hver uppruni faðir hans var. Marbendill er hreinræktuð furðusaga í anda Lovecraft. Þorsteinn Mar er höfundur hennar og má finna söguna í smásagnsafninu Myrkfælni.

Húsið – smásaga
Ungur drengur, sem sendur var í sveit á Snæfellsnes, ákveður einn ágústdag að hjóla um nesið. Hann fær lánað hjól og nesti í poka en leggur svo af stað. Seinni partinn gerir rigningu og hann leitar sér skjóls á næsta bæ. Það sem hann áttar sig ekki á, að þetta er enginn venjulegur sveitabær. Verður drengurinn var við ýmislegt undarlegt. Sagan er eftir Þorstein Mar og birtist í smásagnasafninu Myrkfælni.

Hundgá á heiðinni – smásaga
Laxveiðimaður snýr heim úr veiðiferð í Ísafjarðardjúpi. Á ferð sinni yfir Þorskafjarðarheiði gerir dimma þoku. Hann tekur upp puttaferðalang sem síðan hverfur sporlaust. Þá taka enn undarlegri atburðir að gerast og betra að vara sig á hundunum á heiðinni. Sagan hefur áður birst í tímaritinu Furðusögur og er eftir Þorstein Mar. Sagan er einnig að finna í Myrkfælni.

Við hugarfársins fjöll - nóvella
Hér segir frá rannsóknarleiðangri Miskatonic háskóla til Suðurheimskautsins árið 1930. Gengur leiðangurinn vel framan af, en lendir síðan í hamfaraveðri undir miklum, óþekktum fjöllum. Farast þar margir leiðangursmenn og er búnaðurinn nær ónýtilegur eftir storminn. Forvitni og fræðimennska reka eftirlifandi meðlimi leiðangursins til að rannsaka hvað er handan fjallanna en það sem bíður þeirra þar er óhugnanlegra en þeir gera sér grein fyrir. Sagan þykir með betri verkum H. P. Lovecrafts. Þýðingu gerði Þorsteinn Mar.

Það með þúsund augun – smásaga
Kona segir geðlækni frá draumsýnum sínum. Draumum sem eru martraðakenndir og hafa orðið til þess að hún er nú á hæli fyrir geðsjúka. Læknirinn hvetur sjúkling sinn til að kafa sífellt dýpra í martröðina, sem verður sífellt óhugnanlegri. Höfundur sögunnar er Þorsteinn Mar, en hún hefur áður birst í tímaritinu Furðusögur. Einnig er hana að finna í smásagnasafninu Myrkfælni.

Svartárkot – smásaga
Stúdent ræður sig til sumarstarfa á afskekktum bæ suður af Bárðardal, Svartárkoti. Þar búa feðgin, hann kominn til ára sinna en hún á svipuðum aldri og stúdentinn. Taka þau saman og eignast tvíbura. Í fæðingu deyr konan en tekur loforð af stúdentinum um að snúa aftur í Svartárkot með börnin, sem hann gerir. Þá tekur við atburðarrás þar sem vættir landsins koma við sögu ásamt fornum sértrúarsöfnuði. Höfundur sögunnar er Þorsteinn Mar.

Margt er líkt með hjónum – smásaga
Sækjast sér um líkir, segir málshátturinn. Svo er um hjónin í þessari sögu, sem eiga sér sameiginlegt áhugamál, sem er af verri toganum. Þegar frúnna grunar að eiginmaðurinn sé að stunda þetta áhugamál þeirra án hennar þátttöku verður hún ansi reið. Sagan varð í 2. sæti í glæpasagnasamkeppni Glæpasagnafélagsins og DV og er eftir Þorstein Mar.

Heimkoma – smásaga
Ungur maður snýr aftur heim úr sjálfskipaðri sjö ára útlegð í þorpið þar sem hann ólst upp. Maðurinn er þó ekki allur þar sem hann er séður og uppgötvar á ný ástæður þess að hann yfirgaf þorpið á sínum tíma. Heimkoma er hrollvekjandi smásaga eftir Þorstein Mar, höfund bókanna Myrkfælni og Þoku.

Stolnar stundir – nóvella
Nóvellan Stolnar stundir segir frá nokkrum dögum í lífi ungra hjóna. Hringt er í skakkt númer sem á eftir að hafa ófyrirséðar afleiðingar og leyndarmál er afhjúpað. Stíll sögunnar er einfaldur en undir yfirborðinu leynast margræðar spurningar, meðal annars um sjálfstæði einstaklingsins gagnvart hlutverkunum sem hann leikur í tilverunni og hugarfarið í samfélaginu á nýliðnum góðærisárum. Ágúst Borgþór hefur getið sér gott orð sem smásagnahöfundur og er óhætt að segja að Stolnar stundir séu með hans bestu verkum.

Rósa – smásaga
Listmálari situr eitt sumar á kaffihúsi. Við sama stræti býr kona sem undarleg saga fer af. Málarinn fylgist gjarnan með konunni og heyrir sögu hennar. Smásagan sigraði í Ástarsagnasamkeppni Vikunnar sumarið 2010. Smásagan er eftir Þorstein Mar.

 

Tvisvar á ævinni
5637150837Smásagnasafnið Tvisvar á ævinni inniheldur margar af besti smásögum Ágústs Borgþórs, en hann er meðal okkar fremstu smásagnahöfunda. Margar af þeim níu sögum sem hér er að finna hafa birst á prenti áður sem og unnið til verðlauna. Stíll Ágústs er einfaldur, blátt áfram og myndríkur. Titill bókarinnar vísar hins vegar til meginþema sagnanna, en þær lýsa því á óvæntan og stundum dulúðugan hátt hvernig fortíðin vitjar okkar, persónurnar verða oft fyrir sömu reynslunni í annað sinn á ævinni og bregðast við henni og minningunni sem hún vekur á mismunandi hátt.

Hvítir múrar borgarinnar
5637151078Í borg framtíðarinnar er allt falt fyrir rétt verð. Hverfi eru girt af með veggjum til að verja borgarana fyrir hvor öðrum og mismunandi stéttir aðskildar. Þeir sem standa ekki við skuldbindingar sínar er vísað úr borginni eða jafnvel teknir af lífi. Lex Absque er starfsmaður Vegarins sem innheimtir skuldir fyrir stórfyrirtækið Mammon. Eina kvöldstund verður á vegi hans mál sem tengist einum af valdamestu mönnum samfélagsins. Hann er sendur í eitt fínasta hverfi borgarinnar að vegna morðs á fjármálastjóra Mammons. Morðinginn er auðfundinn en Lex er ósáttur við lyktir málsins. Hann ákveður því komast að sannleikanum sjálfur. Þetta leiðir hann inn í atburðarrás sem mun hafa áhrif á alla borgarbúa.