Navigation Menu+

Íslenskar fantasíur

Posted on Feb 18, 2013 by in Fréttir | 0 comments

16516_fantasy_monster

Fyrir skemmstu kom út bókin Meistari hinna blindu eftir Elí Freysson en það er Sögur útgáfa sem gefa bókina út. Ekki er ætlunin að fjalla sérstaklega um þá bók, en þó er gaman að sjá svo veglega útgáfu á sögu sem flokkast sem fantasía. Eins er ekki markmiðið að gagnrýna bókina á einn eða annan hátt, heldur langar mig að velta vöngum yfir svolitlu öðru sem þó tengist bókinni, þ.e. forminu og hvort þetta sé fyrsta íslenska fantasían í sinni nútímalegu mynd. Ég fór því aðeins að velta fyrir mér íslensku fantasíunni.

Fantasíubókmenntir fjalla um það sem getur ekki gerst, hefur ekki gerst og mun (líklega) aldrei geta gerst. Flakk á milli heima, sögusvið er annar eða hliðstæður heimur, atburðir gerast sem eru ekki mögulegir. Þannig mætti skilgreina mjög margar bækur sem fantasíur, væri þessi skilgreining túlkuð mjög vítt. Þannig mætti kalla síðklassískar Íslendingasögur margar hverjar fantasíur, t.d. Grettis saga Ásmundssonar. Þar er að finna mjög fantasíukennda atburði, baráttu við drauga o.s.frv. og sterka skáldskaparvitund.Þó er það ekki fantasía þar sem formið sem slíkt varð ekki til fyrr en á rómantíska tímabilinu. Einnig hljótum við líka að skoða hvort tilgangur höfundar hafi verið að skapa fantasíu. Út frá þessum rökum er hægt að líta framhjá t.d. bókum Gunnars Gunnarssonar sem gerast í hliðstæðum veruleika og jafnvel með fantasíukenndum atburðum, þ.e. sögusviðið er ekki raunverulegt heldur hliðstæður heimur.

Í dag horfa flestir til þess, þegar fjallað er um fantasíur, um hvað viðkomandi saga fjallar. Tilkoma Tolkien, Lewis og fleiri höfunda á fyrri hluta 20. aldar setti bókmenntaforminu ákveðin mörk og fjalla margar fantasíur um álíka efni og bækur þessara höfunda, þ.e. um hetjur sem ríða um héruð, vopnaðar sverðum og göldrum og berjast gegn hinu illa. Í sögunum gerist eitthvað sem ævintýra- eða goðsagnakennt, t.d. goðsagnaverur á borð við dreka eða álfa, galdrar og seiðskrattar, og allt vekur þetta furðu og áhuga sögupersóna. Í Tolkiensku fantasíunni, high-fantasy, voru álfar, dvergar, drýslar og hvað eina, en því fer fjarri að hann hafi riðið á vaðið með slíkar sögur, þó svo oft standi Hringadróttinssaga upp úr sem FANTASÍAN þegar fjallað er um slíkar bókmenntir, t.d. voru sögur Robert E. Howard um Conan löngu orðnar þekktar.

George R. R. Martin, Robert Jordan og fleiri álíka höfundar hafa síðan fært þetta form upp á annað plan, sérstaklega sá fyrstnefndi með sögubálki sínum Song of Ice and Fire, sem sjónvarpsþættirnir Game of Thrones eru byggðir á. Í þeim getur verið erfitt að átta sig á hver er hetja og hver andhetja, þar sem allir róa á af kappi sömu mið, þ.e. að öðlast meiri völd. Í raun mætti segja að sú sería hafi brotist í gegnum hugmyndafæðina sem Lewis og Tolkien settu greininni. Einnig mætti týna til höfunda á borð við Terry Pratchett sem hafa skrifað sögur þar sem grín er gert að forminu og öllu snúið á haus.

Hérlendis hafa komið út þó nokkrar bækur sem flokka mætti sem fantasíur. Langflestar þeirra hafa verið skrifaðar fyrir börn en eru engu að síður fantasíur. Eftir því sem ég kemst næst eru bækurnar Fúfu og Fjallakrílin eftir Iðunni Steinsdóttur og Guðmundur Hreinn með gull í nögl eftir Véstein Lúðvíksson fyrstu fantasíurnar gefnar út hérlendis eftir íslenska höfunda. Báðar komu út 1983 og voru hugsaðar fyrir börn. Þó nokkrar slíkar hafa komið út síðan þá, þeirra þekktastar líklega Ert þú Blíðfinnur? eftir Þorvald Þorsteinsson og Sagan af bláa hnettinum eftir Andra Snæ Magnason. Einnig hafa komið út bækur sem eru hugsaðar fyrir eldri lesendur. Iðunn Steinsdóttir hefur skrifað nokkrar þeirra, t.d. Galdur vísdómsbókarinnar sem kom út 2004. Einnig vann þess háttar saga til verðlauna sama ár, Sverðberinn eftir Ragnheiði Gestsdóttur, en það er klassísk milli-heima saga. Vilborg Davíðsdóttir skrifaði bækurnar Nornadóm og Við Urðabrunn sem komu báðar út á 10. áratuginum. Á síðasta ári kom sagan Saga eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen. Ekki leikur nokkur vafi á þar er fantasía á ferðinni, þó svo sagan hafi ekki verið markaðssett með þeim hætti. Hins vegar er þar á ferð nútímafantasía þar sem fléttað var saman nútíma og goðsögum, eflaust fyrsta nútímafantasían.

Hér eru dæmi um íslenskar fantasíur (fengið af vef Íslenskuskólans):

Dæmi um íslenskar fantasíur

  • Iðunn Steinsdóttir Fúfu og fjallakrílin.
  • Vésteinn Lúðvíksson Guðmundur Hreinn með gull í nögl.
  • Guðrún Helgadóttir Gunnhildur og Glói.
  • Heiður Baldursdóttir Álagadalurinn.
  • Iðunn Steinsdóttir Drekasaga.
  • Iðunn Steinsdóttir Gegnum þyrnigerðið.
  • Iðunn Steinsdótir Þokugaldur.
  • Vigdís Grímsdóttir Gauti vinur minn.
  • Andri Snær Magnason Sagan af bláa hnettinum.
  • Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson Brúin yfir Dimmu.
  • Þorvaldur Þorsteinsson Ert þú Blíðfinnur? : ég er með mikilvæg skilaboð.
  • Elías Snæland Jónsson Drekagaldur. .
  • Herdís Egilsdóttir Dularfulla dagatalið.
  • Iðunn Steinsdóttir Galdur vísdómsbókarinnar.
  • Ragnheiður Gestsdóttir Sverðberinn.
  • Þorvaldur Þorsteinsson Blíðfinnur og svörtu teningarnir : lokaorustan.
  • Þórarinn Leifsson Bókasafn Ömmu Huldar
  • Harpa Dís Hákonardóttir Galdrasteinninn
  • Gunnar Theódór Eggertsson Steindýrin
  • Sigrún Eldjárn Eyjubækurnar
  • Elí Freysson Meistari hinna blindu
  • Rósa Grímsdóttir Lína Descret

Ágætt er að átta sig á að munur er á fantasíum í sinni nútímalegustu mynd og nútímafantasíum. Nútímafantasíur gerast á sögutíma okkar (hetjurnar ríða ekki um hestum, heldur keyrum á bílum eða fljúga á loftskipum eða flugvélum) en þar sem ævintýra- og goðsagnaverur eru til ásamt göldrum og öllu því sem þeim fylgir. Þannig er Saga eftirlifenda mun frekar nútímafantasía en Meistari hinna blindu. Harry Potter sögurnar og þríleikur Philip Pullmans eru einnig dæmi um nútímafantasíur. Sem sagt, í nútímafantasíunni renna saman okkar heimur og fantasían.

Í raun ef ég ætti að líkja Meistaranum við einhverja af Post-Tolkiensku fantasíunum myndi ég benda á þríleik Donaldsson, The Chronicle of Thomas Covenant, fyrir utan að mér finnst þar meira kafað ofan í aðalpersónuna, þ.e. dekkri hliðar aðalpersónunnar eru sýnilegri.

Hvernig sem á það er litið, þá er gaman að útgefendur skuli vera opna augun fyrir þessu formi sem bókmenntagrein sem fullorðnir hafa einnig gaman að.

 

(Hlekkur á mynd)

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>