Rafbókavæðingin
Áhugavert hefur verið að fylgjast með umræðum á netinu í kjölfar opnunar rafbókaverslunarinnar Skinna.is. Ljóst er að margir neytendur eru ekki sáttir við það fyrirkomulag sem sumar útgáfur hafa á rafbókaútgáfu sinni, bæði veldur að verðlagning á sumum titlum er hærri en á kiljum og eins sú staðreynd að ekki er boðið upp á skráarsnið sem Kindle styður. Í ljósi þess að 59% niðurhala á síðasta ári af Rafbókavefnum var fyrir Kindle er skiljanlegt að margir eigendur slíkra lesbretta skuli vera pirraðir. Það er jú verið að sniðganga ansi stóran neytendahóp.
Rafbókavæðingin felur í sér gríðarleg tækifæri, ekki leikur nokkur vafi á því. Enda hefur það sýnt sig á Amazon, þar sem sjálfsútgáfur og minni forlög hafa blómstrað, enda geta þær boðið upp á verð sem stóru forlögin eiga erfitt með að keppa við. Hér á landi hefur Emma.is tekið þessa markaðshugmynd föstum tökum og má nálgast þar marga titla á verði sem er í lægri kantinum fyrir bækur. Hins vegar verður að teljast ólíklegt að hérlendis muni verða hægt að kaupa nýja titla á undir þúsund krónum, eins og er stundum hægt á Amazon. Við höfum útskýrt í hverju okkar verðlagning felst (sjá hér) og teljum að sanngjarnt sé að neytendur geti keypt okkar titla á verði sem inniheldur ekki prentkostnað.
Hérlendis er þessi markaður nokkur vanþróaður. Útgefendur óttast ólöglega dreifingu og leita því margir logandi ljósi eftir afritunarvörn sem þeir telja nógu góða. Sé úrvalið á Eymundsson, vef Forlagsins og Skinnu skoðað kemur í ljós að mörg af stærri forlögunum notast við Adobe ID afritunarvörnina. Í raun er ekkert út á það að setja að notuð skuli afritunarvörn, Skinna býður upp á slíkt sem og Amazon. Það er eðlilegt að við sem stöndum í því að gefa út hugverk reynum eftir fremsta magni að verja verkin gegn ólöglegri afritun. Sá galli fylgir þó gjöf Njarðar, að Adobe ID styður ekki skrársnið fyrir Kindle eins og er, heldur aðeins er hægt að lesa skrár varðar með þeim hætti í lesurum sem styðja vörnina.
Þegar við hjá Rúnatý vorum að fara af stað með rafbækur í sölu skoðuðum við þessi mál vandlega og í raun mætti segja að tvö sjónarmið vegi þarna salt, annars vegar þörfin fyrir afritunarvörn og hins vegar auðvelt aðgengi neytenda. Við rýndum í hvernig aðrar útgáfur hérlendis hafa hagað þessum málum, t.d. Forlagið, Ás útgáfan o.fl. Eftir gaumgæfilega íhugun komumst við að þeirri niðurstöðu að aðgengi neytenda væri okkur mikilvægara en afritunarvörn. Upp til hópa er fólk heiðarlegt og vill að ungir íslenskir listamenn fái greitt fyrir vinnu sína. Langflestir dreifa ekki efni með ólöglegum hætti og sérstaklega ekki efni sem er aðgengilegt og á sanngjörnu verði.
Um leið og markaðurinn er vanþróaður hérlendis, eru neytendur hins vegar orðnir nokkuð sjóaðir í kaupum og lestri rafbóka. Margir eru kúnnar Amazon eða iBooks og lesa mikið af rafbókum. Þeir neytendur þekkja lítið annað en fá nákvæmlega það sem þeir eru að leita eftir á góðu verði og fá það jafnvel sent beint í lesgræjur sínar. Hægt er að fá íslenskar rafbækur sendar beint í iPad eða álíka spjaldtölvur en enn sem komið er þurfa neytendur að tengja Kindle lesbretti sín við tölvur til að hlaða inn á þær íslenskum rafbókum keyptum í öðrum rafbókaverslunum en Amazon. Væri gaman ef lausn fyndist á því vandamáli.
Rúnatýr útgáfa leggur mikla áherslu á útgáfu rafbóka. Við erum lítið forlag, með sérhæfða útgáfustefnu og því er rafbókin sem himnasending fyrir okkur. Í okkar huga leikur enginn vafi á að á komandi misserum munu sífellt fleiri unnendur bókmennta færa sig yfir í þetta form og við viljum því tryggja að okkar titlar séu aðgengilegir og ódýrir. Eins sjáum við tækifæri í að bjóða upp á smásögur í stykkjatali, þar sem það gefur okkur færi á að kynna unga og upprennandi höfunda með tiltölulega lágum tilkostnaði.
Spennandi verður að fylgjast með þessari þróun komandi vikur. Ljóst er að neytendur fylgjast grannt með hvernig þessum málum er háttað og kalla eftir að stóru forlögin og rafbókaverslanir komi til móts við þá. Eins verður gaman að sjá hvort neytendur kaupi þá frekar ódýrari titla eða skoði frekar þær bækur sem hægt er að hlaða niður í Kindle, einkum á meðan stærri forlögin eru ekki að sinna þessum hópi. Tækifærin fyrir litla útgáfu eins og okkur eru því fjölmörg.