Navigation Menu+

Ólögleg dreifing hugverka á netinu

Posted on Feb 18, 2013 by in Fréttir, Hugleiðingar | 0 comments

piracy_desktop_1680x1050_wallpaper-319364

Í gær mátti sjá auglýsingu frá SMÁÍS í Fréttablaðinu þar sem íslenskir notendur eru hvattir til að kaupa efni eftir löglegum leiðum á netinu. Ýmislegt mætti ræða um framsetningu auglýsingarinnar, þá slæmu stereótýpu sem dregin er þar upp og eins um skilaboðin sem í auglýsingunni felast, að ekki leikur nokkur vafi á að setja hefði átt skilaboðin fram með betri og skynsamlegri hætti og þó svo að þetta sé líklega gert til að vekja enn meiri athygli, þá má ekki gleyma því að hin raunverulegu skilaboð týnast í þeirri umræðu sem sprettur upp vegna framsetningarinnar. Þannig verður auglýsingin sjálf að umræðuefni en ekki skilaboðin.

Ólögleg dreifing hugverka er vandamál, flestir ættu að geta verið sammála um það. Hugverkum er stolið á hverju ári fyrir miklar upphæðir, þó vissulega megi ræða hversu mikið raunverulegt tap hugverkaiðnaðarins er. Hins vegar eru langflestir notendur á netinu heiðarlegir og reyna að finna leiðir til að fá efni eftir löglegum leiðum. Við Íslendingar erum svolítið sér á báti, því við megum ekki eiga í viðskiptum við margar af stærstu tónlistar- og kvikmyndaveitum eða vefverslunum á netinu, t.d. iTunes, Sky, Netflix o.s.frv. Samt birtast þær upplýsingar ekki þegar notendur skrá sig inn, að vegna lagaumhverfis á Íslandi sé niðurhal þeirra ekki löglegt, þrátt fyrir að þessar veitur séu með samninga við rétthafa verkanna sem í boði eru.

Hið sama gildir um rafbækur. Ólöglega dreifing er af mörgum útgefendum talið mikið vandamál og grípa því til þess að afritunarverja rafbækur sínar. Því miður leiðir það til þess að notendur geta hvorki lesið þær bækur á Kindle eða í gegnum iBooks rafbókahugbúnaðinn, sem fylgir öllum iPad spjaldtölvum. Eflaust hefur hver sína skoðun á slíkum vörnum, þær geta verið gagnlegar en því miður er auðvelt að fjarlægja þær og margar virka þær hvetjandi á þá sem hafa gaman af því að aflæsa slíkum vörnum.

Við hjá Rúnatý höfum tekið sömu afstöðu og þeir sem reka emma.is og skinna.is. Við treystum notendum og treystum því að gott aðgengi og gegnsæ verðlagning sé letjandi fyrir notendur að dreifa hugverkum ólöglega. Hjá emma.is er engin afritunarvörn sett á rafbækur en þeir hjá skinna.is merkja hverja keypta rafbók þeim sem keypti eintakið. Hvor aðferðin er góð og gild, þar sem áhersla er lögð á að notandinn þurfi ekki að stunda einhverjar æfingar við að opna skjöl eða sé skyldaður til að nota annan hugbúnað en þann sem hann kýs sjálfur. Þannig er gott aðgengi og gott verð besta afritunarvörnin.

Við hvetjum alla okkar lesendur til að deila ekki hugverkum og kynna sér vandlega hvaða leiðir eru löglegar til að ná sér í efni á netinu. Hugverk, hvort sem um tónlist, ritlist, kvikmyndir eða hvað annað er að ræða, eru útbúin og gerð af einhverjum og mikilvægt að tryggja að viðkomandi fái tekjur af sinni vinnu. Öll viljum við að listamenn hafi tekjur af vinnu sinni, sérstaklega þegar við njótum þeirra gæða sem þeir framleiða.

Að því sögðu langar okkur til að láta ykkur vita af ofurtilboðinu sem í gangi er á rafbókaversluninni skinna.is. Þar er hægt að fá skáldsöguna Þoku og þýðinguna á smásögum Lovecraft, Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur, á aðeins 490 kr. fram til 18. ágúst. Báðar bækurnar henta fyrir alla rafbókalesara.

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>