Navigation Menu+

2011 og 2012

Posted on Feb 18, 2013 by in Fréttir | 0 comments

AtTheMountainsOfMadness

Síðasta ár var viðburðaríkt. Við ákváðum að slá til og stofna útgáfu. Eftir vandlega leit að góðu og lýsandi heiti enduðum við á Rúnatý, sem er gamalt Óðinsheiti. Það merkir sá sem hefur stjórn á rúnunum og okkur fannst vel við hæfi að útgáfan bæri það nafn, enda ágætis lýsing á því sem rithöfundar þurfa m.a. að fást við. Við lögðum grunn að því starfi sem við vildum vinna, skilgreindum hvernig bókmenntir við vildum gefa út fyrst og fremst, ásamt því að hefja vinnu við að koma Myrkfælni á prent.

Við lærðum gríðarlega margt á því ferli, eiginlega miklu meira en við gerðum okkur í grein fyrir í upphafi. Ekkert okkar hafði áður komið að útgáfu bóka og þurftum því að læra allt um leið og hlutirnir gerðust. Sölusamningar voru gerðir við N1, Hagkaup, Nexus og Eymundsson og kom Myrkfælni út síðastliðið vor. Salan gekk ágætlega, bókin stóð undir sér, sem var jú fyrir mestu. Það var ýmislegt sem við hefðum viljað gera betur en lærum af þeim mistökum og gerum vonandi ekki þau hin sömu á þessu ári. Það sem mestu máli skipti var þó, að við vorum trú okkur sjálfum og hikuðum hvergi í að markaðssetja bókina sem genre bókmenntir, nánar tiltekið hrollvekju.

Í haust tókum við síðan upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á ókeypis rafbækur einu sinni í hverju mánuði á hér á síðunni okkar. Þetta teljum við vera frábæra leið til að kynna annars vegar höfunda og ná til fleiri lesenda, og hins vegar að kynna enn frekar fyrir lesendum að genre bókmenntir eru skrifaðar á íslensku og eru margar hverjar býsna frambærilegar. Í það heila hefur rafbókum Rúnatýs verið halað niður hátt í 400 sinnum og vonum við innilega að lesendur okkar njóti þessa framtaks.

Auk þess gengu tveir frábærir einstaklingar til liðs við ritstjórn félagsins, Kjartan Yngvi Björnsson og Unnur Heiða Harðarsdóttir, og hafa þau svo sannarlega komið sterk inn. Litla útgáfan er því að vaxa og mun vonandi dafna enn frekar á þessu ári.

Í vor stefnum við á að gefa út tvær bækur. Annars vegar hrollvekjandi skáldsögu eftir Þorstein Mar. Sagan gerist í Reykjavík á 9. áratuginum og sver sig í ætt við furðusögur, um leið og aðalpersónur þurfa að leysa úr flóknum gátum og ráða forna leyndardóma fer einhver um stræti og fremur hryllileg morð. Hin bókin sem koma mun út í vor er þýðing á nokkrum smásögum H. P. Lovecrafts, en hann er af mörgum talinn einn frumlegasti rithöfundur furðuskáldskaparins. Þeir sem vilja geta ráðið í hver meginsagan verður í þeirri þýðingu með því að skoða myndina sem fylgir þessari færslu.

Auk þess erum við að vinna að fleiri verkefnum, þ. á m. verkefni sem tengist Íslendingasögum, tveimur fantasíum og vísindaskáldsögu. Fyrsti kaflinn úr síðastnefnda verkefninu hefur birst hér í formi rafbókar og fengið góðar viðtökur. Við vonum að eitthvað af þessum verkefnum ljúki á þessu ári svo hægt verði að koma þeim í útgáfu.

Ákveðið hefur verið að allt efni Rúnatýs verði einnig gefið út í rafbókaformi á þessu ári og lögð verður áhersla á, að efnið verði aðgengilegt á öllum rafbókalesurum. Verðlagningu rafbóka verður stillt í hóf og munu rafbækur Rúnatýs ekki bera prentkostnað, dreifingarkostnað eða annan kostnað sem fellur til vegna umsýslu sem tengist prentuðum bókum beint.

Við hlökkum til þess að takast á við ný verkefni á þessu ári og vonumst til að þið eigið eftir að njóta þess sem frá okkur kemur.

 

(Hlekkur á mynd.)

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>