Navigation Menu+

Væntanlegar furðusögur frá Rúnatý

Posted on Apr 4, 2013 by in Fréttir, Fréttir af bókum | 0 comments

runatyr6

Fyrsta árið sem Rúnatýr starfaði kom út ein bók, Myrkfælni. Á síðasta ári komu út tvær bækur, ein skáldsaga og þýðing á nokkrum smásögum Lovecrafts. Á þessu ári eru væntanlegar furðusögur frá Rúnatý og stefnum við á að þær verði fjórar.

Hvítir múrar borgarinnar

hvtucover2Í lok janúar kom út í rafbókaformi vísindaskáldsagan Hvítir múrar borgarinnar eftir Einar Leif Nielsen. Gerist sagan í óskilgreindri framtíð í ónefndri borg, þar sem allt er fallt fyrir peninga. Aðalpersóna sögunnar, Lex sem starfar hjá innheimtustofnun borgarinnar, er ekki sáttur við eina innheimtu og ákveður að rannsaka það mál upp á eigin spýtur, en er hann reiðubúinn undir það sem hann kann að finna? Er hann tilbúinn að færa þær fórnir sem það útheimtir? Sagan hefur fengið ágætar viðtökur og prýðisgóða dóma. Er hún væntanlega í kiljuformi þegar nær dregur sumri.

Flóttinn til skýjanna

coverflottinn2

Ekki lokaútgáfa af kápu

Á næstunni er væntanleg gufupönkssagan Flóttinn til skýjanna eftir Kristján Má Gunnarsson. Sagan segir frá róstusömum sólarhring í borginni Bushehr við Persaflóa, þar sem herir Rómverska heimsveldisins hafa umkringt borginni í örvæntingarfullri leit að nokkrum einstaklingum. Gerist sagan árið 1407 e.kr. og er gengið út frá því, að Rómarveldi hafi aldrei hrunið og hinar myrku miðaldir aldrei átt sér stað. Aðalsöguhetjur leita leiða til að komast úr borginni áður en sprengjur rómverska stórskotaliðsins byrja að falla. Úr verður æsispennandi saga og verður áhugavert að sjá hvernig íslenskir lesendur taka á móti gufupönkssögu.

Drakúla

drakulaLíklega verður ekki ofsagt að sagan af greifanum illa frá Transilvaníu sé ein allra þekktasta vampírusaga seinni tíma. Fjölmargar kvikmyndir hafa verið gerðar upp úr efni bókarinnar og Drakúla sjálfur birst sem illmenni eða andhetja í ótalmörgum verkum. Hið undarlega er þó, að aldrei hefur komið út heildstæð þýðing á bók Bram Stokers, aðeins endursagnir. Við stefnum á að gefa út þýðingu á bókinni á haustmánuðum og hlökkum til að sjá hvernig Íslendingar taka við greifanum ódauðlega.

Auk þessara þriggja bóka erum við í óða önn að ljúka ritstjórn á fantasíu, sem er í senn klassísk en um leið nýstárleg. Við hvetjum aðdáendur góðra fantasía til að fylgjast gaumgæfilega með okkur á næstu vikum, þegar við munum færa ykkur nánari fréttir af þessari áhugaverðu sögu.

Að sjálfsögðu erum við alltaf til í að taka á móti og lesa fleiri handrit. Af gefnu tilefnum viljum við þó benda á, að við leggjum áherslu á að gefa út íslenskar furðusögur á íslensku fyrir íslenska lesendur.

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>