Hvers vegna valdirðu þessa bók?
Við Íslendingar erum með svolítið sérstaka útgáfumenningu. Við stærrum okkur jafnan að því hversu mikil bókaþjóð við erum og miðað við hina sívinsælu höfðatölu gefum við út svo og svo margar bækur per haus. Margfaldast sala bóka um hver jól og er eins og stór hluti þjóðarinnar hafi ekki áttað sig á að bókabúðir séu opnar árið um kring. Hins vegar þegar við skoðum nánar út á hvað jólabókamarkaðurinn gengur, þá virðast flestir ekki vera kaupa bækur handa sjálfum sér, heldur sem jólagjafir. Og því hlýtur sú spurning að vakna, hvað stjórnar því hvað við lesum?
Metsölulistar
Birting metsölulista hlýtur að hafa áhrif. Margir lesendur vilja lesa það sem aðrir hafa lesið og bækur sem eru í umræðunni. Metsölulistar eru þannig mótandi fyrir áframhaldandi sölu þeirra bóka sem þangað rata. Hins vegar segir sala bókar ekkert til um gæði hennar, heldur aðeins um hvernig sala hennar hefur verið. Margar útgáfur nýta sér þessa staðreynd í markaðssetningu sinni, því þær auglýsa að bók sé í þessu eða hinu sæti á metsölulistum.
Gagnrýni
Neytendur líta oft til þess hvernig bók hefur verið gagnrýnd. Þannig getur þáttu eins og Kiljan eða bókmenntarýni í blöðum og öðrum miðlum haft afgerandi áhrif á sölu bókar. Við treystum því að þeir sem gagnrýna bækur hafi til þess þekkingu og viti um hvað þeir eru að tala. Hins vegar er ekki jafn oft fjallað um gagnrýnendurna sjálfa, hvaða fyrirfram mótuðu skoðanir þeir hafa. Þó hefur sú umræða komið upp nú þetta haustið og þá sérstaklega með tilliti til Páls og Bergþóru í Kiljunni. Gott er að hafa í huga að stjörnugjöf sú sem finna má í blöðum, birta skoðanir gagnrýnenda fyrst og fremst. Ekki má heldur gleyma að gagnrýnendur hafa mjög oft hagsmuna að gæta, stórar útgáfur eru oft öflugir auglýsingakaupendur hjá þeim miðlum þar sem gagnrýnendurnir starfa. Líklega er því best að treysta á algjörlega óháðar umfjallanir sem finna má m.a. á netinu, t.d. Druslubækur og doðrantar eða stjörnugjöf í vefverslun Eymundssonar.
Með hverju mæla fjölskylda, vinir og kunningjar?
Líklega er þetta einn öflugasti hvati til lestrar. Mæli einhver nákominn manni með bók, aukast jú líkurnar á því að maður lesi viðkomandi verk. Við treystum jú þessu fólki best og það ætti að vita hvers lags bókmenntir við viljum lesa. Vinir hafa oft svipaðan smekk og maður sjálfur og því getur það eitt að fá að vita hvaða bækur eru á náttborði viðkomandi haft áhrif á hvaða bækur maður sjálfur velur að lesa.
Framstilling og útlit
Þegar við erum að kaupa bækur þá skiptir vissulega framstilling máli sem og útlit. Við dæmum mjög oft bækur út frá kápunni. Við hjá Rúnatý fórum mjög sérstaka leið við hönnun á kápu Myrkfælni, höfum hana einfaldlega kolsvarta með hvítum stöfum. Hafði það áhrif á söluna? Eflaust hafa einhverjir dæmt bókina út frá kápunni, sem og hvar hún var í hillu og hvort mörg eintök af henni voru til. Allt hefur þetta áhrif. Eins þegar fram líða stundir og bókin stendur í bókahillunni.
Gjafir
Um jólin fá flestir að minnsta kosti eina bók í jólagjöf. Það eitt og sér er stýrandi í sjálfu sér, því ekki er ólíklegt að maður sé spurður um hvernig manni hafi þótt viðkomandi bók.
Bókaflokkar, bókmenntagreinar, höfundar
Margir legga það á sig að lesa heilu bókaflokkanna, t.d. Ísfólkið. Þannig kallar ný bók í flokknum á það að vera lesin. Eins hafa bókmenntagreinar áhrif, sumir keppast við að vera sem víðlesnastir í ákveðinni bókmenntagrein. Hið sama gildir um höfunda.
Verðlaun
Við tökum alltaf eftir því ef bók fær verðlaun. Einhverra hluta vegna eiga þau að vera staðfesting á gæði skáldverka. Í raun endurspegla verðlaun oftar en ekki mikið meira en gildismat þeirra sem sátu í dómnefnd. Þannig er oft lítill munur á þeim sögum sem koma til greina sem sigurvegarar í slíkum keppnum, enda bókmenntir þannig úr garði gerðar að þegar allt kemur til alls þá stýrir huglægt mat vali okkar.
Auðvitað er þetta ekki tæmandi upptalning. Hins vegar er ágætt að hafa þetta í huga. Sérstaklega í ljósi þess að það eru margar útgáfur sem eru að reyna brjótast undan oki jólabókaflóðsins. Hvað er það sem stýrir því hvað þú lest?