Navigation Menu+

Flóttinn til skýjanna – væntanleg gufupönkssaga

Posted on Mar 30, 2013 by in Fréttir af bókum | 1 comment

steampunk_matte_paint_by_mala2180-d50xw67

Kristjan_Mar_passiÁ næstu vikum er væntanleg frá okkur gufupönkssagan Flóttinn til skýjanna eftir Kristján Má Gunnarsson. Sagan gerist árið 1407 e.kr. Rómverska heimsveldið féll aldrei heldur óx og dafnaði. Flugskip svífa um himininn og landamæri veldisins þenjast út. Umsátursástand myndast  um borgina Bushehr sem hrindir af stað atburðum sem munu skekja stoðir veldisins.

Segir sagan frá Trinius, sem er rómverskur og endar sem strandaglópur í borginni þegar umsátrið hefst. Hann tekur höndum saman við Júlíu, skipstjóra sjóræningjaskipsins Ariadne. Saman hrinda þau af stað flóttaáætlun sem er bæði stórhættulega og snarbrjáluð.

En þegar hið mögulega þrýtur, reynirðu hið ómögulega.

Flóttinn til skýjanna er fyrsta bók í Rómarþríleiknum, þar sem loftskipssjóræningjar og leynifélög berjast um völd og áhrif. Leyndarmál úr fortíð veldisins koma í ljós og munu móta framtíð þess.

Hér að neðan má lesa stuttan kafla úr byrjun bókarinnar.

 

Flóttinn til skýjanna

Úr 2. kafla

 

Fréttir af atburðum morgunsins bárust hratt um borgina. Æstir skipstjórar reyndu að leggja úr höfn en voru stöðvaðir af rómverskum skipum. Fáir sneru aftur og þeir sem það gerðu breiddu út sögur um mannlaus vélknúin skip, að Rómverjar væru lítið annað en úrverk og olía.

Trinius var Rómverji sem gæti svarið fyrir að vera knúinn af gufu eða eldsneyti en slíkar áhyggjur voru honum ekki efst í huga. Fréttirnar höfðu ekki borist honum og ferðafélögum hans, hótelið sem þau héldu sig í lagði mikið upp úr því að halda umhverfi hótelsins og andrúmslofti afslöppuðu. Á óvart kom því þegar serkklæddur Persi braust í gegnum anddyrið og hrópaði á persnesku yfir veitingastofuna þar sem Trinius sat. Gestirnir litu furðu lostnir upp frá drykkjum sínum í átt að manninum sem stóð í rauðgylltu dyrunum og jakkafataklædda þjónana sem réðust á hann. Fleiri Persar blönduðust í rimmuna uns Trinius missti töluna á fólkinu sem var þar samankomið.

„Hvað sagði hann,“ spurði Trinius og rýndi í þvöguna.

Terentia leit frá rifrildinu og sagði áhugalaus: „Kannski er hann reka þetta fólk áfram, við fáum þá kannski einhverja þjónustu.“ Harður hreimur norðursins loddi við hvert orð.

„Ólíklegt, himnarnir hrynja áður en þeir læra að brenna ekki kaffið þitt,“ sagði Trinius og gafst upp á að fylgjast með óhljóðunum.

Terentia brosti ofan í kaffibollann. „Ég veit ekki, það er örlítið ljósara núna, ekki mikið öskubragð.“ Trinius leist svo á að kuldinn í fæðingarlandi hennar hefði kælt orðaflæðið. Hún hélt því hins vegar fram að  hann talaði of hratt.

„Og ennþá drekkurðu það,“ sagði Trinius og fékk sér sopa af of heitu tei.

„Betra en tesullið þitt,“ sagði hún með glott á vör og sneri sér aftur að bókinni.

Terentia var freknótt og sólbrennd með stutt rautt hár sem stakk í stúf í veitingarýminu og þessum heimshluta öllum. Gyllt augu hennar voru sem límd á lítilli bók, svo gamalli að hún virtist vera að hrökkva í sundur. Fíngerðar en sólbrenndar hendur gættu sín á því að halda kaffibollanum frá bókinni. Brúnt pils náði henni að hnjám, og rauðgyllt lífstykki hélt henni teinréttri. Hún var í hvítri skyrtu sem hafði átt betri daga en eftir langa dvöl í eyðimörkinni hafði Terentia ekki margra kosta völ.

Trinius var vel greiddur og svarthærður með langt andlit og kröftugt nef. Hann hafði reynt að viðhalda yfirvaraskeggi en eftir nokkra daga án raksturs var það horfið í stutt alskegg. Sægrænu augun virtust glóa þegar hugmyndirnar flæddu um höfuð hans. Hann var í óhreinum gulbrúnum jakka, brúnu vesti og hvítri skyrtu með brunabletti. Ólíkt Terentiu sem virtist ekki vera að flýta sér agnarögn hafði hann hvorki bók við höndina né virtist hann njóta þess að vera á veitingastofunni. Frá sýlófón ómuðu róleg lög frá Vestur-Afríku og blár tóbaksreykur liðaðist um stofuna. Þvagan í anddyrinu mjakaðist rólega frá veitingastofunni og í átt að stóru og opnu anddyri.

„Hvenær förum við héðan,“ spurði hann og horfði á svitastokkið hár hennar bærast í andvaranum.

Terentia svaraði ekki strax, upptekin við lesturinn: „Í nótt, við þurfum að fara aftur til Kronus. Síðan beint til Rómar.“

„Komumst við ekki fyrr?“ spurði Trinius óþolinmóður.

Terentia leit upp. „Hefurðu einhverjar áhyggjur?“

„Það er her fyrir utan borgina,“ hvíslaði Trinius og benti í þá átt sem hann taldi líklegast að borgarmúrarnir voru. „Tíu þúsund manns að leita að okkur og bókunum sem við tókum.“

Terentia grúfði sig á ný yfir bókina. „Þeir komast ekki inn fyrir hliðin. Bundnir af heimskulegum samningum og skriffinnsku.“

Trinius yggldi sig. „Já, kannski, en samt. Tíu þúsund manns.“

Hún tók sopa af kaffinu og svaraði Trinius kaldhæðnislega: „Einn her. Og við vitum bæði að hann hefur ekki tíu þúsund manns.“

„Ekki gleyma flotanum,“ hvíslaði Trinius önugur.

Hún yppti öxlum. „Þeir geta átt sig, um leið og við erum kominn á Helios erum við örugg.“

Trinius leit óþolinmóður í kringum sig og sagði þreytulega: „Eigum við þá ekki að koma okkur?“

„Þú getur talað við  Markús. Ég ætla ekki að stressa mig.“

Trinius andvarpaði, hallaði sér nær henni og hvæsti: „Þetta er ekki spurning um að stressa sig. Ég vil bara komast héðan sem fyrst. Tíu þúsund manna her á höttunum eftir manni hefur þannig áhrif á flesta.“

Hún beyglaði munninn og sagði önuglega: „Þú lætur eins og krakki. Ég veit hvað þessir menn geta gert. Ég var með þér þegar við flúðum Kronus, en við vitum að Harkle kemst aldrei hingað inn því hann er klaufi. Ef hann hefði sent fimmtíu menn klædda eins og íbúa Bushehr hefði hann náð okkur vandræðalaust. Hann tók hins vegar allt herfylkið með sér og kallaði til fjögur skip að auki. Þessi borg er undir vernd Rómar en stjórnendur hennar þurfa ekki að taka við hernum frekar en þeir vilja. Konungurinn hér er gamall og rótgróinn asni og hleypir engum inn fyrr en eftir nokkra daga rifrildi og vitleysu. Á meðan hverfum við út í nóttina.“

Trinius starði á Terentiu og reyndi að finna einhver mótrök en gafst upp. Terentia sneri sér á ný að bókinni og rautt hár hennar skein í ljósi gaslampans fyrir ofan.

„Það hljóta að vera lög gegn því að hafa svona oft rétt fyrir sér og líta samt svona vel út,“ sagði hann og gafst upp.

Terentia brosti um leið og hún svaraði: „Þakkaðu bara fyrir að þú fáir að njóta hvoru tveggja.“

Hvað sem var að gerast í anddyrinu náði hámarki. Raddirnar urðu háværari og æstari. Trinius sneri sér í stólnum og horfði á stóra konu grípa í hárið á manni og snúa hann niður. Stór og luralegur karl birtist og dró manngreyið út úr hótelinu. Einhverjir komu honum til hjálpar en þeim var líka hent öfugum út. Fyrir utan mynduðu þeir hóp sem öskraði á þá sem voru inni á hótelinu.

Terentia leit upp. „Hvað gengur eiginlega á?“

„Ekki spyrja mig,“ svaraði Trinius og reyndi að henda reiður á hversu margir voru fyrir utan.

„Það er allt farið í hundana, það er það sem gengur á,“ sagði  Markús sem birtist skyndilega hjá þeim.  Markús var feitlaginn maður sem kjagaði venjulega áfram með háum stunum og mikilli fyrirhöfn. Það að honum hafði tekist að komast svo nærri þeim án þess að parið tæki eftir því var ekkert minna en kraftaverk.

„Við verðum að koma okkur frá Bushehr,“ sagði hann svo hratt að erfitt var að skilja orðaflauminn.

„Hvað áttu við,“ spurði Trinius og sneri sér frá ólátunum.

Markús þerraði svita af enninu með hvítum klút. „Konungurinn fékk sendiboða frá vini okkar, Harkle.“

Terentia lagði bókina frá sér. „Og? Er herinn að koma?“

„Það má segja það,“ sagði  Markús og tróð klútnum í vasa á teinóttri skyrtu. „Konungurinn drap sendiboðann!“

468 ad

1 Comment

  1. Flott, hlakka til að sjá meira. Vissi ekki af því að það væri einhver steampunk áhugamenn að gera eitthvað skemmtilegt. Eeen ég veit það núna :-)

Leave a Reply to Ingimar Oddsson Cancel reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>