Navigation Menu+

Upprisan

Posted on Feb 18, 2013 by in Fréttir | 0 comments

44880_guten_press_lg

books-pile1Á undanförnum árum hafa íslenskar útgáfur verið tregar til að gefa út efni eftir íslenska höfunda sem fellur ekki að hugmyndum manna um hina íslensku skáldsögu. Spennusagan náði sem betur fer loks í gegn og síðastliðin jól hafa þess háttar bókmenntir verið stór hluti sölunnar. Og sú bylting hefur gert það að verkum, að augu útgefenda eru smátt og smátt að opnast fyrir þeim möguleika að gefa út eitthvað annað en sveitarómansa eða raunsæislegar nútímadramabókmenntir.

Ég veit ekki hvort það er vegna þess að sífellt fleiri og betri höfundar eru farnir að halla sér að genrebókmentum. Kannski er sú raunin. Yrsa Sigurðardóttir skrifaði Ég man þig og seldist sú bók mjög vel. Reyndar var hún markaðssett sem spennubók en ég held að það dyljist engum sem lesi bókina að fyrst og fremst er um hrollvekju að ræða. Auk þess hafa tímarit á borð við Furðusögur gefið ungum höfundum færi á að sjá sögur sínar á prenti, sögur sem falla annars ekki inn í hinn fastmótaða ramma íslensku skáldsögunnar.

Gallinn er að mínu mati sá, að of lengi hefur skuggi Laxness hvílt á íslenskum rithöfundum. Hann var vissulega stórgóður rithöfundur á sínum tíma en ég held að alltof margir hafi reynt annað hvort að líkja eftir honum eða gert sitt best til að vera ekki eins og hann. Þannig hafi Laxness haft gríðarleg áhrif á menningu rithöfunda og það hafi í raun ekki verið fyrr en með tilkomu norrænu spennusögunnar hérlendis að höfundar og útgáfur sáu að hægt að var stíga fram undan skugganum og út í ljósið.

Fyrir nokkrum árum kom hrollvekjan Börnin í Húmdölum eftir Jökul Valsson út, svo síðustu jól Ég man þig og nú í vor kom út safn hryllingssagna eftir mig. Ég veit að það eru fleiri sem eru að skrifa hrollvekjur eða spennusögur með hrollvekjandi ívafi. Auk þess hefur fantasíunni vaxið ásmegin, í síðasta sunnudagsblaði Moggans var viðtal við ungan norðlenskan rithöfundum sem hefur skrifað fantasíur og mun fyrsta bók hans verða gefin út af Sögum nú í haust. Rósa Grímsdóttir er auk þess að gefa sjálf út fyrstu bókina í fantasíubókaflokki sínum. Í gegnum tíðina hafa verið gerðar tilraunir með vísindaskáldsöguna, t.d. Lovestar eftir Andra Snæ, en persónulega sakna ég þess að sjá vísindaskáldsögu sem gengur alla leið.

Ég held, að við munum sjá meira af þessu á komandi árum. Þessar genrebókmenntir eru í raun að rísa upp sem gjaldgengar bókmenntir og fyrir vikið munu bæði forlög og lesendur smátt og smátt víkka sjóndeildarhring sinn hvað lestrarefni varðar. Enda sýna sölutölur frá löndunum í kringum okkur að lesendur þar vilja þess háttar efni, t.d. eru Stephen King og Terry Pratchett með mest seldu höfundum í sínum löndum. Upprisa genrebókmennta er fyrir löngu tímabær hérlendis og vonandi mun jólabókaflóðið í ár verða enn fjölbreyttara en áður.

Mig langar því til að hvetja sem flesta að gefa þeim bókum gaum sem út koma og falla ekki í hið klassíska form íslensku skáldsögunnar. Gefa ungum höfundum sem skrifa genre bókmenntir tækifæri. Meiri fjölbreytni í bókaskápnum getur ekki verið af hinu verra.

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>