Nýjar bækur
Tvær nýjar hrollvekjur komnar í verslanir. Annars vegar er það þýðing á hinu þekkta verki H.P. Lovecraft, Call of Cthulhu. Hins vegar ný íslensk skáldsaga, Þoka, eftir hinn efnilega Þorstein Mar.
Margir hrollvekjuunnendur þekkja verk H. P. Lovecrafts sem er einn af áhrifamestu höfundum hryllingsbókmennta samtímans. Hann er talinn vera einn af sporgöngumönnum furðusagna og í sögum hans mætast hrollvekjan og fantasían á skemmtilegan hátt. Núna hafa fimm af sögum hans verið þýddar á íslensku og eru fáanlegar, allar saman, í bókinni Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi smásögur sem gefin var út á dögunum.
Áhrif Lovecrafts ótvíræð
Í bókinni eru m.a. þýðingar á sögunum Call of Cthulhu og At the Mountains of Madness sem eru meðal þekktustu verka Lovecraft. „Ég hef alltaf dáðst að Lovecraft en ég byrjaði að lesa hann á unglingsárunum. Það sem gerir sögurnar hans góðar er sá veruleiki sem hann býr til, þar sem manneskjan er aðeins hverful tilviljun í ógnarstórum veruleika. Þetta hafa margir reynt að leika eftir en fáum tekist jafn vel upp að mínu mati,“ segir Þorsteinn Mar sem þýddi sögurnar. „Margir höfundar hafa leitað til Lovecrafts og nefna margir af helstu genre-rithöfundum samtímans hann sem einn helsta áhrifavald sinn, höfundar á borð við Stephen King, Brian Lumley og Neil Gaiman.“
Íslensk hrollvekja sem gerist í Reykjavík
En Þorsteinn skrifar líka sjálfur og var að gefa út sína aðra bók, skáldsöguna Þoku. „Sagan er hrollvekja, en þó ekki í anda Lovecraft þó í henni séu ákveðin einkenni weird-fiction,“ segir Þorsteinn. Í bókinni segir frá því þegar mannlaust skip finnst á Faxaflóa. Enginn veit hvaðan það kom, hvers lenskt það er eða hvernig það endaði við Íslandsstrendur. Eftir að lögreglan hefur rannsóknir á skipinu hefst hrina hryllilegra morða í Reykjavík og undarleg þoka leggst yfir borgina við Sundin.
Í fyrra sendi Þorsteinn frá sér smásagnasafnið Myrkfælni og fékk hún ágæta dóma gagnrýnenda. „Myrkfælni… er skemmtileg nýbreytni og höfundur fer vel af stað með sinni fyrstu bók.“ (SG/Morgunblaðið) „…tekst Þorsteini hvað eftir annað að skapa verulega hrollvekjandi stemningu.“ (ÚD/Bókmenntir.is).