Navigation Menu+

Væntanleg fantasía – Vargsöld

Posted on Apr 29, 2013 by in Fréttir | 0 comments

Þoka_kapa

Á næstu vikum er væntanleg fantasían Vargsöld eftir rithöfundinn Þorstein Mar. Um er að ræða ungmennasögu (e. Young-Adult) sem segir frá Ráðgríð, ungri konu, sem býr í landi sem heitir Norðmæri. Hún lendir þar í ýmsum ævintýrum og þarf að takast á við ólíkar hættur, bæði vættir og menn. Mætti kalla söguna í vissum skilningi hefðbundna fantasíu þó svo að mörg hefðbundin minni slíkra sagna séu brotin upp. Er þessi bók sú fyrsta í sögunni um Ráðgríð, en bókaflokkurinn mun bera nafnið Roðasteinninn.

Fyrir mörgum öldum spáði jórskur prestur því, að upp rynni öld Vargsins með svartnætti sínu og óvættum. Þegar ókunnar verur ráðast á þorpið Vegamót slær óhug að íbúum þess og fær Ráðgríð, ásamt vini sínum Hræreki, það verkefni að láta greifann af Norðmæri vita en sú ferð á eftir að draga dilk á eftir sér og mun reyna á vináttu þeirra. Hefur Ráðgríð það sem þarf til að vera hetja?

þorsteinnÚt hafa komið tvær bækur eftir Þorstein Mar, smásagnasafnið Myrkfælni og skáldsagan Þoka. Þá hafa einnig komið út styttri textar eftir hann í rafbókaformi, t.d. nóvellan Svartárkot og ýmsar smásögur. Eins þýddi hann smásögur eftir H. P. Lovecraft sem komu út í safni á síðasta ári, Kall Cthulhu og fleiri hrollvekjandi sögur.

Kápa bókarinnar er unnin af listakonunni Margréti Nilsdóttur.

Hér að neðan má fá sjá fyrsta kafla sögunnar.

Hægt er að kaupa bókina í rafbókarformi á Skinna.is og Emma.is.

——- + ——-

Roðasteinninn I:

Vargsöld

I

 

Snjó kyngdi niður. Mjöllin settist á kræklóttar greinar trjánna í Rauðviði og var sem hvít ábreiða hefði verið dregin yfir skóginn. Í húminu færðist kyrrð yfir skóglendið, úr köllum hjarta og söng fugla dró um leið og rökkrið seig á aldagömlu trén. Ekki þyrfti að bíða þess lengi að myrkrið tæki skóginn í faðm sinn og rándýr næturinnar færu á stjá. Í fjarska spangólaði úlfur, einmanalegt hljóðið barst í gegnum ljósaskiptin eins og skæra á dimmri vetrarnóttu. Hópur hvítþrasta hóf sig til flugs og hvarf á milli greina og kvöldskugga.

Ráðgríð hallaði sér að trjástofni. Hún sat í greni hátt yfir skógarbotninum, í rauðviðartréi sem var nokkrar mannhæðir að þykkt. Grenið var einfalt, byggt úr við og hugsað fyrir grænstakk, eins og Ráðgríð. Hún dró ullarkuflinn nær sér og lagði hettuna yfir höfuðið. Blá augu hennar störðu út í kalda nóttina, þau hviku til og frá eftir því sem tónlist skógarins tók á sig á dekkri og grimmúðlegri mynd. Í kjöltu sinni geymdi hún boga, vopn sem hún hafði sjálf smíðað. Boginn var úr ýrviði, einfaldur en traustur. Hún hafði skorið út auga við hvorn enda handfangsins, merki Geilinar, gyðju þeirra sem vernda og vaka yfir öðrum. Hlutverk Ráðgríðar, sem grænstakks, var að hafa auga með veiðislóðum sem mættust við grenið. Hún sat róleg og tróð snjó upp í sig. Í dauðalogni var hættara við að skógardýrin yrðu hennar vör, en hún þurfti ekki að gæta þeirra. Hlutverk grænstakkanna var að gæta að veiðiþjófum, rándýrum og óvættum. Reyndar hafði ekki sést óvætt í Rauðviði svo áratugum skipti og Norðmæri allri, ef því var að skipta, að Dröngum undanskildum, sem var hæðlendi á Heiðarskaga vestast á Normæri.

Fyrir neðan hana bærðist skógarþykknið. Hind fetaði hikandi eftir öðrum slóðanum að greni Ráðgríðar, sem hallaði sér varlega fram til að sjá betur úr greninu. Hindin var rauðleit og hvítar skellur á hrygg hennar. Augun voru dökk og stór. Dýrið fikraði sig varfærnislega nær stóra trénu og leit sífellt í kringum sig. Ósjálfrátt gerði Ráðgríð slíkt hið sama. Skógarnóttin var þétt og dimm, ofankoman dró úr útsýn Ráðgríðar og hún bölvaði í hljóði. Hún hafði ekki lengi verið meðlimur grænstakkanna og fyrir vikið komu vaktir á borð við þessa í hennar hlut. Hún hafði, í trássi við óskir föður síns, sóst eftir því að ganga til liðs við þann hóp einstaklinga sem tók að sér að líta eftir skóglendinu við litla þorpið Vegamót og býlin sem voru þar í kring. Faðir hennar, Reginn, var æðstur grænstakkanna, kallaður fógeti og hafði fyrir þremur árum síðan lofað Temasi, syni Sjágvan, kaupmanni þorpsins, hönd Ráðgríðar, gegn því að Temas gæti sýnt fram á að hann gæti alið henni og tilvonandi fjölskyldu þeirra önn. Slíkt var algengt í Norðmæri og var það hlutverk foreldra að gifta börn sín. Ráðgríð hafði ekki í sjálfu sér verið andsnúin ráðahagnum á sínum tíma, enda var hún því fegin að ekki hefði einhver maður úr öðru þorpi beðið um hönd hennar. Hins vegar hafði hún alla tíð látið sig dreyma um að verða eins og faðir sinn, læra að berjast með sverði og skjóta af boga, geta farið um skóginn og hvert sem hugurinn girndist, því hana langaði til að sjá meira af Norðmæri en rétt skóginn við Vegamót. Hann hafði kennt henni undirstöðuatriði bogfimi og sýnt henni hvernig ætti að halda á lagvopni. Bróðir hennar, Rögnar, hafði dáið fyrir nokkrum vetrum, hann féll niður um vök á ís og ósjálfrátt hafði hún reynt að fylla skarðið sem hann skildi eftir sig. Hún vissi þó, að um leið og Temas sneri aftur úr ferðum sínum, væri henni ætlað að stýra húshaldi þeirra og þá væru líklega dagar hennar sem grænstakkur taldir. Það var hlutverk giftra kvenna í Vegamótum og Temas var mjög íhaldssamur í skoðunum sínum, eða hafði verið það þegar þau voru yngri. Hún hafði heyrt að svo væri ekki alls staðar og var frændi hennar, Unnar, giftur konu frá þorpinu Slévaði, sem var sunnar og austar á Norðmæri, og nær Dölunum, en þau voru bæði varðliðar og skiptu hlutverkum heimilisins jafnt á milli sín. Una, móðir Ráðgríðar, var þó jafnoki Regins og hlýddu þorpsbúar henni ekki síður en Regin.

Milli trjánna færðist skuggi úr stað. Ráðgríð rýndi niður úr greninu. Skugginn fór hratt en hljótt yfir og virtist vera reyna komast fram fyrir hindina. Í myrkrinu voru gul augu skuggans eins og tvær litlar týrur í gluggum húsanna í Vegamótum. Ráðgríð teygði sig í bogann sinn. Fleiri glyrnur komu í ljós. Úlfar, hugsaði hún með sér og reisti sig varlega við. Hún dró ör á streng. Í myrkrinu þurfti hún að treysta á fleiri skynfæri en augu og hún minntist æfinga sem þau faðir hennar höfðu farið í gegnum. Hann batt fyrir augu hennar og kenndi henni að miða út frá heyrninni. Hún blístraði söng gulskúfs, þrastartegundar sem algeng var í Rauðviði. Allir útverðir vissu að gulskúfar sungu aldrei á meðan dagsbirtu ekki naut og því var söngur þeirra notaður sem aðvörun á milli grena á nóttum sem þessari. Hún steig framar á pall grenisins og miðaði niður fyrir sig. Hindin virtist hafa áttað sig á þeirri hættu sem hún var stödd í, því hún tvísteig og hnussaði út í loftið. Aftan að henni læddust tveir úlfar, annar kolsvartur en hinn grár og úfinn. Ráðgríð lét örina fljúga. Í bogastrengnum söng og örin klauf loftið. Svarti úlfurinn stökk að hindinni, sem hljóp af stað. Örin lenti í hnakka gráa úlfsins og stakkst þar á bólakaf. Úlfurinn gaf frá sér ámátlegt vein en hneig svo niður.

Um leið var sem skógurinn vaknaði til lífsins í kringum Ráðgríð. Svarti úlfurinn þaut á eftir hindinni, sem flúði út í nóttina. Allt í kringum hjartardýrið spruttu fram skuggar með gular glyrnur og urruðu að því og glefsuðu. Ráðgríð dró aðra ör á streng. Þá var blístri hennar svarað.

„Hrærekur hlýtur að ná einhverjum þeirra,“ hvíslaði hún, þó hún væri ein í greninu. Ráðgríð leit aftur yfir pallbrúnina. Grái úlfurinn lá enn þar sem hann hafði fallið og blóð myndaði svartan blett í snjónum við trjáræturnar. Hún leit í þá átt sem úlfastóðið hafði hrakið hindina og síðan á reipishönkina sem var innst á grenispallinum, hún velti því fyrir sér hvort hún ætti að þora niður og gera að hræinu. Hættan var sú, að það myndi draga að sér fleiri rándýr og öllu hættulegri en úlfa, svo sem birni eða hlébarða. Íbúar Rauðviðar höfðu lært að lifa í skóginum innan um rándýrin sem gerðu skóginn að kjörlendi sínu, oftar en ekki hafði bitur reynsla kennt þeim hvernig best væri að hirða um og líta eftir búlendi og gripum. Rándýr á borð við úlfa gátu á skömmum tíma valdið miklum skaða ef ekkert var gert til að stíga stemmu við þeim, svo ekki væri minnst á rauðbirni, gaupur og fjallaljón.

Hún greip reipishönkina og lét kaðalinn síga. Hún kom boganum fyrir á baki sínu og vafði fótunum um reipið. Í grenum nær þorpinum voru kaðalstigar, en ólíklegt var að rándýr hættu sér svo nálægt þorpinu. Ráðgríð var við ystu mörk þess svæðis sem grænstakkarnir vöktuðu. Hún klifraði fimlega niður. Allt frá því hún lærði að ganga hafði Ráðgríð leikið sér í trjám skógarins og stokkið milli greina. Hún staldraði við um stund, leit rannsakandi í kringum sig. Ekki var hægðaleikur að lenda í úlfi í svartamyrkri. Úlfar fóru afar sjaldan um einsamir og veiddu frekar í hópum.

Gráklæddur maður rann hljóðlaust fram úr rökkrinu. Hann leit til Ráðgríðar, sem hékk enn í reipinu, og bar fingur að vörum sínum. Hár hans var svart sem nóttin en augun gulbrún og fannst Ráðgríð sem af þeim stafaði einkennilega birtu. Hún bar strax kennsl á manninn, þrátt fyrir að hún hefði aldrei áður hitt hann. Ráðgríð höfðu verið sagðar margar sögur um Gaust, einsetumanninn sem bjó djúpt í iðrum skógarins. Eins og svo margir íbúar Vegamóta hafði hún setið á Káta íkornanum, eina gistiheimilinu í Vegamótum, og hlustað á farandkaupmennina tala saman um undarlega manninn sem þeir sáu stundum glitta í á milli sverra bola rauðviðartrjánna. Þegar hún var yngri var móðir hennar vön að hóta að Gaustur myndi hirða hana ef hún hlýddi ekki. Þá hafði hún trúað því að Gaustur hlyti að vera einhvers konar tröll, nátttröll eða jafnvel blátröll. Gaustur hélt á einfaldri bolexi og kraup við hræið af úlfinum og líktist á engan hátt trölli eða nokkurri annarri óvætt. Ráðgríð lét sig síga alla leið og fikraði sig nær honum.

„Gott skot,“ sagði Gaustur. Rödd hans var djúp og hrjúf. Hann tók um örina og kippti henni úr sárinu. Handleggir hans voru stæltir, fingurnir þykkir og lófarnir stórir. Gaustur rétti Ráðgríð örina. Hann tók síðan um hnakka dýrsins og lyfti því. Tungan lafði úr kjaftinum og draup bleik froða þaðan, tennur dýrsins voru hvítar og hvassar. Í kringum augu úlfsins voru rauðir blettir, eins og áblástur. Við sárin voru harðir, ljósir hnúðar. „Þetta er ekki eðlilegt. Sjáðu hér, Ráðgríð,“ sagði Gaustur og benti á blettina.

„Hvernig veistu hvað ég heiti,“ spurði hún undrandi.

Gaustur brosti vinalega. Hann sneri sér að Ráðgríð.

„Þó ég sé ekki alltaf aufúsugestur í litla þorpinu ykkar, þá þekki ég íbúa þess engu að síður ágætlega. Ég fylgist með ykkur úr fjarlægð,“ svaraði hann. Síðan benti á hann hræið á ný og bætti við: „Við ættum samt að hafa meiri áhyggjur af þessu, frekar en hvort ég viti hvað þið grænstakkarnir heitið. Þetta er ekki eðlilegt og mig grunar að þetta sé ekki af náttúrulegum orsökum.“

„Áttu við? Heldurðu að þetta . . .,“ byrjaði Ráðgríð. Gaustur hristi höfuðið. Svartir lokkar féllu fram yfir andlit hans.

„Ég ætla ekki að fullyrða eitt eða neitt, eina sem ég get sagt fyrir víst, er að þetta eru ekki eðlileg sár á gráúlfi og þetta er ekki sá fyrsti sem ég sé svona útlítandi.“

Í fjarska var söngur gulskúfs blístraður. Ráðgríð leit þangað, í átt að greni Hræreks. Gaustur rétti úr sér og lagði hönd á öxl hennar. Eitt augnablik fannst henni sem þung byrði hefði verið lögð á herðar sínar. Hún sneri höfðinu að Gausti og augu þeirra mættust.

„Þú ættir að biðja föður þinn að fara að býli Grágamms gamla, vont er að vita af honum einum og vargar á ferð,“ sagði Gaustur, alvarlegur í bragði. Hann viðraði í allar áttir og bætti síðan við: „Það eru veðurbrigði í nánd. Illur máni er dreginn á næturhiminn.“

„Hvað áttu við?“

„Mundu, Ráðgríð Reginsdóttir, að úlfurinn sem þú sérð er aldrei sá sem ræðst á þig,“ sagði Gaustur og stökk hljóðlaust af stað í sömu átt og úlfarnir höfðu haldið á eftir hindinni. Hann hljóp fimlega yfir þykkar rætur rauðviðartrjánna og hvarf út í næturmyrkrið.

Ráðgríð leit á hræið við fætur sína. Feldur gráúlfsins var rytjulegur og úfinn. Dýrið var horað og starði lífvana út í dimma skógarnóttina. Snjór féll enn og huldi slóð úlfanna hraðar en Ráðgríð kærði sig um. Hana langaði að elta Gaust og sjá hvort henni tækist að fella fleiri úlfa, en hún vissi að hætta var búin hverjum þeim sem færi einn um skóginn á myrkum nóttum. Jafnvel þó hún þekkti umhverfi Vegamóta vel, þá treysti hún sér ekki til að fara um með sama hætti og Gaustur.

Glær vessi lak úr sárunum við augu hræsins. Þegar Ráðgríð beygði sig til að skoða þau betur spennti úlfurinn upp gular glyrnurnar. Ráðgríð hrökk við. Ósjálfrátt dró hún leiftursnöggt rýting úr slíðri og rak á bólakaf í háls dýrsins. Úlfurinn stundi og augu hans lokuðust á ný. Ráðgríð færði sig frá hræinu og greip um reipið. Áður en hún tók að klifra upp í grenið leit hún að hræinu, sem lá hreyfingarlaust á snæviklæddri mosabreiðu.

„Það verður vonandi hérna ennþá á morgun, pabbi þyrfti að sjá þetta,“ sagði hún. Ráðgríð ákvað að draga hræið aðeins nær trénu og greip um hnakkadramb þess. Úlfurinn var þungur en hún fann góðan stað upp við breiða rót.

Hún kom sér aftur fyrir í greninu og dró grænan kuflinn þétt að sér. Það kólnaði hratt og hún óskaði þess að hún væri á vakt nær þorpinu, í grenum þar sem mátti kveikja eld. Hrollur læddist upp eftir hrygg hennar, svo geirvörturnar urðu stífar. Rétt eins og margar konur í Norðmæri reyrði hún brjóst sín, en aðeins konur með börn á brjósti gerðu það ekki. Hún tók fram svarbrúnu gæruna sína og lagði yfir axlir sínar. Ráðgríð opnaði litla skjóðu sem hún var með bundna við leðurbelti sitt og dró fram þurrkað hjartarkjöt, sem hún japlaði á. Þrátt fyrir að kjötið væri kalt var það kryddað með logaberjum svo henni hlýnaði að innan við að borða það.

Hún sá fyrir sér notalegu ölstofuna á Káta íkornanum, þar sem eldurinn logaði glatt í arninum fyrir miðjum salnum. Í kringum eldstæðið stóðu rauðviðarborð og stólar með mjúkum sessum, eitthvað annað en kalt og hart gólf grenisins. Skammt frá henni úaði brandugla. Ráðgríð nuddaði upphandleggi sína og reyndi að ná í sig meiri hita. Þegar ættfeður hennar höfðu sigrað Svörtufjöll og flutt úr Dölunum hafði skógurinn ekki verið svo kaldur á veturna. Þá voru sumrin lengri og árnar fullar fiski. Nú var það hending ef veiddist silfurlax í ánni Slé og Bakkatjörn var fyrir löngu orðin svo fúl, að jafnvel endur forðuðust hana. Sólveig, öldungur Vegamóta, sagði að veturnir myndu enn lengjast og harðna. Langt í norðri væri heimurinn að deyja og nákuldi myndi leggjast yfir öll lönd. Ráðgríð átti erfitt með að trúa ekki öldunginum, þar sem hún fylgdist með snjó drífa úr svörtum næturhimninum.

Einhvers staðar geltu og urruðu úlfar. Ráðgríð spratt á fætur og dró ör á streng. Hún rýndi út í myrkrið en sá ekki hvaðan hljóðin komu. Einn þeirra gaf frá sér hvellt ýlfur. Síðan varð allt hljótt á ný. Morgunsöngur gulskúfs var blístraður nokkru frá henni og hún svaraði. Henni var svarað úr enn annarri átt, fleiri grænstakkar höfðu orðið úlfanna varir.

„Sá grái hlýtur að hafa fundið úlfana,“ hvíslaði Ráðgríð og beið enn nokkra stund með örina á stengnum. Loks gekk hún frá henni í örvamælinn og lagði bogann upp við trjábolinn, þar sem var einnig látúnsbjalla. Henni var ætlað að hringja bjöllunni ef hætta stafaði að þorpinu og gefa þannig þorpsbúum færi á að koma sér undan. Þegar skógurinn var enn að mestu leyti ókannaður og Vegamót með nyrstu byggðum voru tröll algengari en nú, sem og aðrar óvættir. Nú var þorpið hins vegar í alfaraleið og langt frá því að teljast norðarlega á Mærinni. Enn norðar voru Fálkahöfn, höfuðstaður ríkisins og borg Arberts greifa, sem og Þrúðheimar, sem stóð á Tröllaskaga. Af Fálkahöfn fóru margar sögur og var kastali greifans, Skrúðsborg, sagður óvinnandi vígi, hár, dimmur og grimmúðlegur. Hann hafði verið reistur á klettadrangi skammt fyrir utan víkina sem þar borgina var að finna og gnæfði yfir húsunum. Flestir farandkaupmenn sem komu til Vegamóta voru annað hvort að koma þaðan eða á leið þangað. Þeir sögðu að borgin væri um margt einstök en góð heim að sækja. Af Þrúðheimum fór annað orð og öllu illskeyttara, enda harðgerðari íbúarnir þar og erfiðara að draga fram lífið í harðgeru landinu.

Ráðgríð settist á nýjan leik og kom sér fyrir við hlið bogans. Þrátt fyrir að henni leiddist vaktir sem þessar, var hún upp með sér að hafa fengið færi á að verða grænstakkur. Ekki stóðust margar konur inntökuprófin, en nokkrar þó. Una, móðir hennar, var ein þeirra og hafði á sínum yngri árum staðið vaktir í grenum, eins og Ráðgríð. Hún hafði þurft að þreyta ýmsar þrautir, sem sneru bæði að vopnfimi og líkamshreysti. Erfiðast þótti henni að synda í leðurbrynju og alvopnuð yfir Grafarhyl í Slé. Þó var sundspretturinn ekki svo erfiður, heldur hve henni varð kalt í kjölfarið. Hinir umsækjendurnir voru fljótir að klæða sig úr brynjum og fötum og þurrka þau við eld. Hún hikaði í fyrstu, enda hafði hún aldrei staðið nakin fyrir framan karlmann áður og þeir sem höfðu náð þetta langt í inntökuprófunum voru allir karlkyns. Þegar tennurnar glömruðu í munni hennar ákvað hún þó að mikilvægara væri að ná hita í kroppinn en að hafa áhyggjur af því að einhver hinna umsækjendana kynni að sjá hana nakta. Um margt grunaði Ráðgríð að sú ályktun hefði vegið þungt í ákvörðun föður hennar um að leyfa henni að ganga til liðs við verðina.

Fyrir neðan grenið brakaði í grein. Ráðgríð hallaði sér fram og leit fram yfir grenisbrúnina. Hvítur úlfur, stærri en nokkur sem hún hafði áður séð, þefaði af úlfshræinu og ýtti við því með trýninu. Hvassar vígtennur náðu langt niður fyrir neðri kjálka. Ráðgríð greip andann á lofti og gerði sig líklega til að stökkva á fætur. Hönd var lögð á öxl hennar.

„Róleg, vina, róleg,“ hvíslaði Gaustur og lagðist við hlið hennar. Megna svitalykt lagði frá honum og hann var rjóður í kinnum. „Þetta er rökkurrefur, nokkuð sem ég hef ekki séð hér í skóginum afar lengi. Okkur stafar engin hætta af honum.“

„Er þetta í alvöru rökkurrefur,“ spurði Ráðgríð gáttuð. Í stofunni á Káta íkornanum var feldur af slíku dýri, en hann var snjáður og mölétin. Garmar, eigandi gistihússins, sagði reglulega söguna af því þegar faðir hans felldi refinn einn síns liðs.

„Já, svo er víst. Sífellt fleiri dýr leggja leið sína hingað suður. Þau elta hjartardýrin. Úlfarnir sem voru hér áðan voru allir horaðir, ég hef ekki áður séð svo stóran úlfahóp hér í skóginum. Og nú rökkurrefurinn. Það er illur máni dreginn á næturhimininn, virkilega illur máni og vargöld í nánd.“

Refurinn þefaði út í loftið og leit árvökull í kringum sig. Síðan tók hann á sig stökk og hvarf út í nóttina. Gaustur steig á fætur og rétti Ráðgríð hönd sína og hjálpaði henni að rísa upp. Síðan klifraði hann hærra í tréð. Þegar hann var að hverfa í snæviklædda laufkórónuna sneri hann sér við og sagði:

„Ekki gleyma að láta föður þinn vita, hann þarf að heimsækja býli Grágamms gamla. Það er mjög mikilvægt.“

468 ad

0 Comments

Trackbacks/Pingbacks

  1. Vargsöld | Einar Leif Nielsen - [...] Rúnatý og eru búið að setja fyrsta kafla bókarinnar á netið. Þið getið nálgast hann hér. Ég er búinn að …

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>