Nexus Furðusagnahátíð
Á föstudag og laugardag fór fram Nexus Furðusagnahátíð, en eins og nafnið gefur til kynna var þar einkum og aðallega fjallað um furðusögur. Skiptist hátíðin í tvennt, annars vegar fræðilega fyrirlestra um íslenskar furðusögur og furðusagnasenuna hérlendis, hins vegar mættu margir höfundar og lásu upp úr nýjum eða væntanlegum verkum. Þar á meðal voru tveir höfundar frá Rúnatý. Var þegar mest lét voru um 50 manns í salnum en að jafnaði vorum um 30 gestir á hverjum fyrir- eða upplestri. Fór hátíðin fram í Norræna húsinu.
Nokkur atriði standa upp úr. Í fyrsta lagi var gaman að heyra hversu fjölbreyttar íslenskar furðusögur eru. Boðið var upp á há-fantasíu, hrollvekjandi fantasíu fyrir börn og unglinga, gufupönk, vísindaskáldsögu og svo mætti lengi telja. Þannig er gróskan í þessum geira umtalsverð, en þó verður að nefna að mikið af sögunum sækja mjög í enska bókmenntahefð. Minna virðist um að íslenskir furðusagnahöfundar sæki í brunn íslenskra þjóðsagna eða Íslendingasagna, sem með sanni má margar kalla furðusögur. Hugsanlega má þar um kenna að enn sem komið er, þá er hefð furðusagna hérlendis ekki mikil, þá einkum er hefð fyrir íslenskum fantasíum og þá fyrir börn og unglinga. Hins vegar er mikilvægt að íslenskir furðusagnahöfundar gleymi ekki íslenskum bókmenntum og lesi þær amk. til jafns við þær erlendu.
Í öðru lagi var skemmtilegt að heyra þær umræður sem spruttu upp í kjölfar fyrir- og upplestra. Var nokkuð rætt um ólíka stöðu karl- og kvenhetja og sýndist sitt hverjum. Þó er ágætt að hafa í huga, að hvort sem höfundur er karl- eða kvenkyns, þá má ekki gleyma að höfða til lesenda af báðum kynjum. Í furðusögum hefur myndast sterk hefð fyrir karlkyns aðalpersónum og er ágætt að furðusagnahöfundar hafi það á bakvið eyrað, þegar verið er að skrifa. Berlega kom fram á hátíðinni að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem lesa og kaupa bækur og það er nokkuð sem gott er fyrir höfunda að muna og minna sig reglulega á.
Eins var áhugavert að sjá hversu víðtæk áhrif H. P. Lovecraft virðist hafa á íslenska furðusagnahöfunda. Af upplestrum að dæma og umræðum má ljóst vera að áhrif hans, bæði bein og óbein, eru óumdeilanleg og hugsanlega áhugavert rannsóknarverkefni fyrir einhvern bókmenntafræðinginn.
Í það heila tókst hátíðin ágætlega, þótt gaman hefði verið að sjá fleiri gesti. Umræður voru skemmtilegar, jákvæðar og uppbyggjandi og ljóst að íslenska furðusagan er svo sannarlega að sækja í sig veðrið. Við hlökkum til að taka þátt að ári.