Navigation Menu+

Kall Cthulhu

Posted on Feb 18, 2013 by in Fréttir, Fréttir af bókum | 0 comments

ctulhu

cthulhuCall of Cthulhu eða Kall Cthulhu er smásaga eftir H.P. Lovecraft og kom hún fyrst út árið 1928 í tímaritinu Wierd Tales. Reyndar skrifaði Lovecraft söguna sumarið 1926 og er þetta eina sagan eftir hann þar sem lesa má um óvættina Cthulhu, sem á að hafa komið utan úr geimnum en sofi nú dauðasvefni í borginni R’lyeh, sem hvílir á hafsbotni langt undir öldutoppum Kyrrahafsins. Upphaflega var sögunni hafnað af Wierd Tales en vinur Lovecraft ræddi við ritstjóra blaðsins og lét í veðri vaka að Lovecraft ætlaði að senda söguna í annað tímarit, sem varð til þess að ritstjórinn skipti um skoðun.

Í sögunni er sagt frá Francis Wayland Thurston sem þarf að gera upp dánarbú frænda síns, Angells prófessors, en þar finnur hann nokkra hluti sem koma honum á slóð hryllilegs trúarsafnaðar og óvættarinnar Cthulhu. Frásagnarmátinn er í nokkurs konar skýrslustíl, Francis segir söguna og nálgast frásögn sína á svipaðan hátt og vísindamaður, reynir að segja hlutlægt frá rannsókn sinni og uppgötvunum en, eins og gefur að skilja, leggur vissulega eigið gildismat á þær persónur sem tengjast frásögninni. Frásögnin skiptir í þrjá hluta, Hryllileg leirmynd (e. Horror in the Clay), Frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns (e. The Tale of Inspector Legrasse) og Martröð á hafi út (e. The Madness from the Sea). Fyrsti hlutinn er frásögn Thurstons af því sem hann hefur lesið úr skýrslu Angells prófessors, sem og segir frá því er hann hittir ungan listamann að nafni Wilcox, en sá bjó til leirmynd sem olli prófessornum miklu hugarangri. Í næstu köflum verður frásögnin marglaga, þ.e. sögð er saga innan sögu. Í fyrsta lagi er það frásögn Legrasse og hins vegar endursögn úr dagbók norsks stýrimanns.

Textinn er mjög Lovecraftískur, ef svo mætti að orði komast. Hann nýtir sér vel ríkan orðaforða sinn og eru myndlýsingar oft á tíðum hlaðnar og huglægar. Setningar eru oft langar og flóknar, eflaust til að draga enn frekar fram vísindalega nálgun aðalpersónunnar. Koma fyrir orð og orðtök sem kalla má forn eða óalgeng, jafnvel á þessum tíma, en eflaust má rekja það til áhuga hans á grískum goðsögum enda ber máls hans þess merki (þess má til gamans geta að afi Lovecraft var duglegur að halda slíku efni að barnabarni sínu og að segja honum furðusögur hvers konar, sem og gotneskar hryllingssögur í óþökk móður hans). Einnig eru vísanir í samtímalistamenn á borð við Clark Asthon Smith, Arthur Machen og jafnvel ýmsar fræðibækur, t.d. The Witch-Cult in Western Europe eftir Margaret A. Murray, en skrif hennar hafa haft áhrif á Wicca trúarbrögðin.

Sjálfur var Lovecraft gagnrýninn á söguna, fannst hún hvorki alslæm né sérstaklega góð. Robert E. Howard, höfundur Conan, tók hins vegar sögunni fagnandi og sagði hana meistaraverk sem ætti eftir að hljóta sess meðal helstu bókmennta. Lítill vafi leikur þó á, að sagan hefur haft gríðarleg mikil áhrif, hvort sem um ræðir bókmenntir eða aðrar þætti menningarinnar. Gerð hafa verið útvarpsleikrit upp úr sögunni, hún hefur verið myndskreytt og gefin út með þeim hætti, einnig var á sínum tíma gerð kvikmynd eftir sögunni. Þungarokkshljómsveitir hafa vitnað óspart í söguna, t.d. Metallica og Cradle of Filth, en sú fyrrnefnda hefur t.d. gert lag sem heitir Call of Ktulu. Einnig hafa verið gerð spunaspil sem byggja m.a. á sögum Lovecraft en bera nafn sögunnar, ásamt því að tölvuleikir hafa verið gerðir með þessu nafni. Áhrifin hafa því verið býsna víðtæk, þá sérstaklega í Bandaríkjunum.

Sagan er vel þess virði að lesa, hafirðu ekki gert það nú þegar. Hið hryllilega í henni er smátt og smátt lætt að lesanda og hann áttar sig á að hið hryllilega er hvorki goðsögulegt (t.d. vampírur eða varúlfar) né persónulegt (t.d. myrkfælni, geðveiki) heldur stjarnfræðileg óvætt sem ógnar öllu mannkyni.

Smelltu hér til að lesa íslenska þýðingu á sögunni. Einnig er hægt að fá söguna sem rafbók hér á síðunni.

 

(Hlekkur á mynd)

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>