Af komandi misserum
Á þessu ári gaf útgáfan Rúnatýr út sínu fyrsta bók, smásagnasafnið Myrkfælni. Þar sem útgáfan var ung, að mestu einyrkjastarfsemi, þá var reynt að stilla öllum kostnaði í hóf til að að tryggja að útgáfan stæði undir sér. Það ferli var afar lærdómsríkt og voru gerð fjölmörg mistök sem vonandi má læra af. Bókin fékk ágæta dóma, þrjár stjörnur að jafnaði. Var ýmislegt gagnrýnt, öðru hrósað og í heild voru bókadómar jákvæðari en neikvæðari. Markaðssetningu var reynt að sinna, einnig eftir ódýrum leiðum og lögðu margir þar hönd á plóg sem við erum afar þakklát fyrir.
Í sumar fjölgaði í ritstjórnarhópnum. Kjartan Yngvi Björnsson, meistaranemi í bókmenntafræði og ritlist, bættist í hópinn. Hið sama gerði Unnur Heiða Harðardóttir, meistaranemi í útgáfu- og ritstjórnarfræðum. Á fyrsta fundi hópsins var ákveðið að viðhalda þeirri stefnu að gefa út genre-bókmenntir, leggja áherslu á góðar og vandaðar hrollvekjur, fantasíur og vísindaskáldsögur. Var mikið rætt um mikilvægi góðrar ritstjórnar og lögð drög að því, að leggja sérstaklega mikla áherslu á slíka vinnu, gott samband rithöfundar og ritstjóra og reyna að tryggja að sem þeir sem væri efnilegir fengu stuðning, góð ráð og hvatningu til áframhaldandi skrifa. Ætlun ritstjórnarhópsins var, að Rúnatýr myndi marka sig sem útgáfa góðra bóka í þessum bókmenntageirum.
Útgáfan hefur einnig gefið út nokkrar styttri rafbækur. Útgáfan þeirra er með öllu einfaldari og ódýrari en prentaðra bóka, en þó var ætlunin að reyna viðhalda þeirri ritstjórnarstefnu sem ákveðin hafði verið. Við gefum út eina rafbók í mánuði, gildi einu hvort um þýðingu eða frumsamdan texta er að ræða. Lögð er sérstök áhersla á að bækurnar innihaldi sögur sem flokka megi sem hryllingssögu, fantasíu eða vísindaskáldskap og var ætlunin að þessar ókeypis bækur myndu ýta undir lestur slíkra bókmennta en um leið kynna nýja og spennandi höfunda eða klassíska fyrir lesendum.
Í dag er útgáfan að vinna að nokkrum verkum; hrollvekjur, fantasíur, vísindaskáldsaga, smásögur, skáldsögur, þýðingar; og er von okkar að eitthvað af því efni verði klárt fyrir komandi vor. Þar sem við erum lítið útgáfufélag er erfitt fyrir okkur að keppa í markaðssetningu við stóru forlögin, þar sem markaðsfé okkar eru aðeins lítið brot af þeirra, þá viljum við frekar forðast jólabókaflóðið. Einnig treystum við á, að þeir sem á annað borð lesa þess háttar bókmenntir leiti sér þær frekar sjálfir uppi, en að treysta á að fá þær í jólagjöf frá vinum og ættingjum.
Einnig mun tilkoma rafbókaverslana hjálpa okkur enn frekar við dreifingu á góðu efni. Okkur langar að nýta þetta tækifæri og óska emma.is hjartanlega til hamingju og góðs gengis. Rafbókavæðing íslenska bókamarkaðarins mun án nokkurs vafa hjálpa forlögum sem Rúnatý og verður spennandi að fylgjast með hvernig sá markaður þróast á næstu árum.