Navigation Menu+

Rafbækur, skruddur, ebækur og netskinnur

Posted on Feb 19, 2013 by in Fréttir, Fréttir af bókum, Hugleiðingar | 0 comments

rosacover

Um síðustu helgi var opnuð ný rafbókaverslun, ebækur.is, og auglýsir hún sig sem stærstu rafbókaverslun landsins. Gaman er að sjá að meira fjör er að færast í þennan markað og óhætt að segja, að þegar forráðamenn tónlist.is taka sig til og fara inn á einhvern markað þá er það gert með látum. Hins vegar hefur það leitt til þess að enn kemur upp umræða um rafbækur, þá sérstaklega um verðlagningu þeirra en eins um aðgengi.

Þessi stærsta rafbókaverslun landsins býður upp á fjölbreytt úrval erlendra titla, yfir 200 þúsund titlar og eftir því sem við komumst næst, allt á ePub sniði. Hins vegar eru notendum færð rausnarleg gjöf stofni þeir aðgang á vefnum. Enn er þó úrval íslenskra titla hjá þeim heldur fáborið (aðeins tæplega 80 íslenskar rafbækur), miðað við emma.is og skinna.is, og einhverra króna verðmunur, sem sjaldnast er nógu mikill að það skipti í raun einhverju máli.

Við hjá Rúnatý stöndum fast á stefnu okkar. Við viljum bjóða upp á rafbækur á eins hagstæðum kjörum og mögulegt er, sem og að aðgengi að þeim sé með besta móti. Í dag kosta nær allir titlar okkar um og undir þúsund krónum í rafbókaformi og eru fáanlegir fyrir alla rafbókalesara. Við treystum lesendum okkar, rétt eins og við treystum þeim til að fjölfalda ekki prentuð eintök þeirra bóka sem við höfum gefið út.

Um verðlagningu og kostnað við gerð rafbóka hefur nokkuð verið skrifað. Gísli Ásgeirsson hefur skrifað um þetta málefni tvær greinar (sjá hér og hér). Óli Gneisti Sóleyjarson fjallaði um sama mál (sjá hér) og af ummælum og svörum við færslum þeirra að dæma þá sýnist sitt hverjum. Hvert forlag verður að svara fyrir sig, en við hjá Rúnatý leggjum okkur fram við að halda kostnaði við gerð rafbóka lágum.

Við erum í óða önn að vinna að fleiri rafbókum og væntanlegar frá okkur á næstu mánuðum eru amk. tvær sögur, annars vegar vísindaskáldsaga og hins vegar gufupönksaga eftir tvo unga og efnilega höfunda. Hvort tveggja eru spennandi verkefni sem eru vel á veg komin og við hlökkum til að segja ykkur nánar frá þeim á komandi vikum og mánuðum.

Í síðustu viku settum við annars vegar Stolnar stundir eftir Ágúst Borgþór Sverrisson og smásöguna Rósu á sölu hjá rafbókabúðinni Skinna.is. Stolnar stundir er eitt af allra bestu verkum Ágústs og fékk góða dóma þegar hún kom út í prenti á sínum tíma. Við vonum að hægt verði að koma fleiri smásögum eftir Ágúst í rafbókaform og höfum auk þess heyrt í fleiri rithöfundum sem vilja gera efni sitt aðgengilegt á þessu formi. Smásagan Rósa eftir Þorstein Mar er ástarsaga og vann ástarsagnakeppni Vikunnar 2010. Stolnar stundir kosta 799 kr en Rósa 329 kr.

468 ad

Submit a Comment

Your email address will not be published. Required fields are marked *

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>