Gotneskar bókmenntir
Árið 1764 kom út skáldsagan Otranto-kastalinn, gotnesk saga eftir Horace Walpole. Jafnan er talið að hún sé fyrsta gotneska sagan sem gefin var út. Gotneskar sögur fjölluðu öðrum þræði um hnignun, oftar en ekki á sögusviði miðalda, og rann saman hið hryllilega og hið rómantíska í þess háttar sögum. Komu auk þess við sögu furður hvers konar og hrollvekjur, t.d. draugar og afturgöngur, sem ýttu enn frekar undir hinn gotneska blæ. Þó saga Walpole sé í raun frekar vanþróað verk, þá hafði það þau áhrif að aðrir rithöfundar tóku að spreyta sig á efninu. Gamlir kastalar, hús þar sem var reimt, myrkur, dauði, tvífarar, launhelgar og hnignun voru aðalsmerki slíkra sagna. Í kjölfar Walpole stigu fram höfundar á borð við Ann Radcliffe (The Mysteries of Udolpho) og Charles Maturin (Melmoth the Wanderer). Allar þessar bækur eru það sem kalla má hefðbundnar gotneskar bókmenntir.
Þegar líða tók á 19. öld kom fram hin viktoríanska gotneska saga. Á margan hátt er það tímabil mjög áhugavert. Þar var hnignunina ekki lengur að finna sjónrænt eða áþreifanlega, eins og í rykugum kastölum eða húsarústum, heldur varð hún sálrænni og persónulegri. Meðal höfunda sem komu fram voru Edgar Allan Poe, Brönte systur, Ambrose Pierce, Rober Louis Stevenson og Bram Stoker, en Drakúla er líklega ein þekktasta gotneska saga allra tíma. Fall Usher ættarinnar (Fall of House Usher) þykir einnig enn þann dag í dag með merkilegri smásögum sem skrifaðar hafa verið. Auk þessara höfunda mætti benda á að gotnesk áhrif var að finna í skrifum margra höfunda á þessum tíma, t.d. Charles Dickens og Nikolaj Gogol.
Á 20. öld kom loks fram póst-viktoríanska gotneska sagan. Þar er hin sálræna hnignun vissulega enn til staðar, kastalarnir eru ekki lengur til staðar en þess í stað myrk háhýsi stórborga, yfirgefin hús mitt í stórum íbúðahverfum. Hið frumstæða, barbaríska, er enn til staðar en bælt af samfélaginu. Margir höfundar hafa skrifað svona sögur; William Faulkner, Joyce Carol Oates, Alice Munro, H.P. Lovecraft, Robert Bloch og Margaret Atwood. Seinni tíma hrollvekjuhöfundar sækja auk þess margir í þennan brunn, t.d. Stephen King, Ann Rice og Peter Straub.
Íslenskar bókmenntir hafa ekki mikla hefð fyrir hrollvekjum eða gotneskum bókmenntum. Eftir því sem næst verður komist er fyrsta íslenska hrollvekjan eftir Vesturfarann Kristján Ásgeir Benediktsson, sem gaf út söguna „Holdsveikin“ í Eimreiðinni undir dulnefninu Snær Snæland árið 1897. Þórbergur Þórðarson þýddi nokkrar smásögur Poe og má flokka sumar sögur Þórbergs sem hrollvekjur. Einnig hafa sumar sögur Gunnars Gunnarssonar ákveðin einkenni gotneskra bókmennta, t.d. Sælir eru einfaldir. Um miðbik 20. aldar birtu mörg tímarit slíkar sögur, m.a. eftir höfundinn Halla Teits. Margir rithöfundar hafa spreytt sig á forminu, t.d. Ásta Sigurðardóttir og Þórir Bergsson.
Undanfarin ár hafa þó komið út nokkrar skáldsögur sem hafa verið hrollvekjur og jafnvel gotneskar. Sumar sögur Stefáns Mána innihalda mjög hrollvekjandi þætti, t.d. Skipið. Hið sama gildir um sum verka Guðrúna Evu Mínervudóttur, Gyrðis Elíasarsonar, Sjóns, Gerði Kristnýju og Svövu Jakobs. Jökull Valsson skrifaði Börnin í Húmdölum, sem kom út fyrir nokkrum árum. Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur verður varla talin annað en hrollvekja. Nú um jólin kemur svo út skáldsagan Hálendið eftir Steinar Braga, sem sögð er sálfræðilega hrollvekja.
(Mynd: Path to the gothic choir eftir Raphael Lacoste)