Sögumaður
Í gærdag átti ég í mjög áhugaverðum samræðum við nokkra einstaklinga um hvort kyn sögumanns skipti máli í frásögnum. Komu fram margar ágætar hugleiðingar og rök um efnið. Var bent á margar skáldsögur og sumar hverjar ræddar sérstaklega og sýndist sitt hverjum.
Sögumaður vs. höfundur
Sögumaður í epík, og jafnvel lyrík einnig, er í raun ímynduð persóna. Allir sem setjast niður og skrifa búa sér til sögumann, einhvers konar frásagnarrödd, sem virkar á margan hátt eins og sía á frásögnina. Sögumaður stýrir því hvernig sagt er frá atburðum, frá hvaða atburðum er sagt og með hvaða hætti frásögnin er, t.d. eru sögumenn Íslendingasagna yfirleitt hlutlægir og halda sér til hlés á meðan margir sögumenn 20. aldar voru hlutdrægir, nálægir og ágengir við lesendur. Þannig getur höfundur ákveðið að sögumaður sé með guðdómlega sýn á atburðina, sjái og lesi hugsanir persóna og hafi almennt alla þá þekkingu á því sem frásögnin fjallar um eða hann getur takmarkað vitneskjuna, jafnvel sett sögumann í miðja frásögnina, þá sem þátttakanda, hvort sem um aðalpersónu eða aukapersónu er að ræða. Þessi sjónarhorn sögumanns eru vel þekkt og hefur m.a. Njörður P. Njarðvík fjallað um þau í bók sinni Saga, leikrit, ljóð.
Sögumaður þarf ekki endilega að vera höfundur. Það er sérstaklega augljóst í sögum þar sem um 1p. frásögn er að ræða. Þá er alveg ljóst frá upphafi hver sögumaður er, við fáum upplýsingar um kyn, stöðu, hugleiðingar osfrv. og getum lagt mat á allt saman. Fyrir vikið er oft auðveldara að meta trúverðugleika sögumanns í þess háttar sögum. Í sögum þar sem notast er við 3p. sjónarhorn er það flóknara. Þar er sögumaður oft ekki sýnilegur og erfiðara að meta af hvoru kyni, hver staða hans sé og hvort hugleiðingar hans og framsetning sé rétt, ef svo mætti að orði komast, t.d. hvort þeir atburðir sem valdir voru til frásagnar gefi rétta mynd af því sem gerðist eða á að hafa gerst.
Svo geta sögur haft fleiri en einn sögumann, sérstaklega þegar sögur verða marglaga. Hins vegar verður maður að gæta að því að þar stjórnar fyrsti sögumaður í raun því sem kemur fram hjá öðrum sögumanni, t.d. getur hann ákveðið að birta orðrétt frásögn að hluta en endursegja aðra þætti og þá með eigin áherslum.
Annað sem stýrir mjög hvernig sögumann höfundur kýs er hinn ímyndaði lesandi. Allir sögumenn tala til ákveðins lesanda eða lesandahóps, sem er af ákveðnum aldri, jafnvel ákveðnum þroska, kominn með ákveðna stöðu í samfélaginu, ákveðna menntun og ákveðið kyn.
Skiptir þetta máli?
Auðvitað skiptir sögumaður máli. Það getur breytt sögu heilmikið hvort sögumaður haldi sig til hlés og leyfi lesandanum að draga sínar eigin ályktanir, eða hvort hann er sífellt að leggja eigin dóm á það sem kemur fram í sögunni og reyni þannig að hafa áhrif á lesandann. Þannig getur samúð sögumanns með einni persónu haft mikil áhrif á það hvernig lesandi upplifir viðkomandi persónu, t.d. ef sögumaður í Dýrasögu eftir Ástu Sigurðardóttur hefði samúð með föðurnum vegna þess hve barnið er óþægt og vitlaust, þá væri þar allt önnur saga á ferðinni.
Skiptir kyn sögumanns máli? Af hverju ætti það ekki að skipta máli? Eru sögumenn nokkurn tíma kynlausir? Ég held að höfundar, hvort sem þeir gera það meðvitað eða ómeðvitað, þá setja þeir ákveðin kynbundin formerki á sögumenn skáldverka sinna. Það er kannski ekki alltaf augljóst, sérstaklega í 3p. frásögnum. Flestir lesendur gefa kannski lítinn gaum að því þegar sögumaður er þeim að skapi eða skoðanir hans stangast ekki á við upplifun þeirra. Í sögunni Sælir eru einfaldir eftir Gunnar Gunnarsson er sögumaður þátttakandi í atburðarrásinni, þ.e. 1p frásögn en hann hefur samt ekki áhrif á hana, þar sem hann er aukapersóna. Hann leggur eigið gildismat ítrekað á þá atburði sem eru að gerast en síðan kemur á daginn að allt það sem hann hafði lagt upp með, allt það sem hann áleit traust og hafið yfir gagnrýni, hrynur til grunna. Lesendur er hins vegar líklega flesta farið að gruna hvernig muni fara að lokum löngu áður en sögumaður áttar sig á því.
Þar sem sögumenn teyma lesendur í gegnum frásögnina, þá hlýtur að skipta máli hvert sjónarhorn okkar er, hvers gildismat er lagt á atburði og hvernig valið er að segja frá atburðum, sem og hvernig þeir atburðir eru valdir, t.d. ef við höldum okkur við Dýrasögu og lesendum hefði verið sagt frá þó nokkrum skiptum þar sem barnið óhlýðnast föðurnum, þá hefði það enn og aftur breytt upplifun okkar af sögunni, samúðin með barninu hefði ekki verið jafn mikil eða ekki jafn sjálfsögð, hvað þá ef sögumaður hefði látið sem hegðun föðursins væri eðlileg refsing barnsins.
Eins og áður segir, þá stýrir hinn ímyndaði lesandi því einnig hvernig sögumaður er. Í auglýsingum er oft reynt að hafa sögumenn af svipuðu toga og sá markhópur sem á að ná til, vegna þess að það hefur sýnt sig að virka. Hið sama gildir í öðrum frásögnum. Ef við skoðum t.d. Twilight bækurnar (nú mun eflaust einhvern hengja mig fyrir að nefna þær), þá höfða þær mjög vel til stelpna á ákveðnum aldri, því aðalpersóna þeirra (sem er sögumaður) talar mjög til þeirra og þær geta þannig auðveldlega sett sig í hennar spor.
Geta höfundar búið til sögumenn af sér gagnstæðu kyni?
Fyrir skemmstu átti ég í samræðum við unga konu háttsetta innan Sjálfstæðisflokksins, þar sem við ræddum um hvort karlmenn gætu komið fram með sjónarmið kvenna og öfugt. Hún var þeirrar skoðunar að karlar gætu ekki komið með kvenleg sjónarmið í samfélagslegum umræðum. Í umræðunni í gær nefndi einn þátttakandi að sér hefði verið sagt að konur ættu auðveldara með að sjá heiminn með augum karlmanna en karlar að sjá hann með augum kvenmanna.
Þetta vekur mig til umhugsunar, því ef svo er, getum við höfundar þá búið okkur til sögumenn af gagnstæðu kyni? Sérstaklega við sem erum karlkyns?
Ég held að þarna komi tvennt til. Annars vegar hversu fær höfundur er (eins og Alexander Dan benti á í gær), því færari sem höfundur er því betri og trúverðugari sögumenn skapar hann. Á því leikur enginn vafi. En lesandinn skiptir líka máli. Hann þarf að sannfæra sjálfan sig um að þetta kynflakk gangi upp, t.d. höfðu útgefendur Harry Potter upphaflega áhyggjur af því að ungir drengir myndu ekki vilja lesa þær sögur af því að höfundur bar of kvenlegt nafn (Joanne Rowling) og báðu því um að höfundarnafninu væri breytt (J.K. Rowling) í kynlausara eða karllægara nafn.
(Mynd: Storyteller eftir Adrianart.)