H. P. Lovecraft
Ef ég man rétt, þá var ég nýbúinn með grunnskóla þegar ég komst fyrst í kynni við H.P. Lovecraft. Á þeim tíma vorum við nokkrir félagar duglegir að spila spunaspil og ákvað einn okkar að stjórna kerfi sem heitir Call of Cthulhu. Við spiluðum nokkur ævintýri og út frá þeim fór ég að kynna mér kerfið betur og komst að raun um að það væri byggt fyrst og fremst á skáldskap þessa höfundar. Ég sá að félagi minn, þessi sem ákvað að stjórna þessu kerfi, átti bækur eftir Lovecraft í bókahillunni hjá sér og fékk ég þær lánaðar.
Eftir það varð ekki aftur snúið. Ég hef lesið nær allan skáldskap hans og ýmislegt meira til, þó ég hafi hingað til ekki haft það í mér að fara í gegnum öll bréfaskrif hans. Vissulega er Lovecraft ekki besti rithöfundur sem Bandaríkin hafa alið af sér, en arfleifð hans er hins vegar mikil og margir, ef ekki flestir, nútímahrollvekjuhöfundar nefna hann sem einn af áhrifavöldum sínum. Sögur hans hafa náð kannski meiri hylli á síðustu árum og t.d. skilst mér að kvikmynd sé í undirbúningi sem gera á eftir einni af lengri sögum hans, At the Mountains of Madness. Reyndar hafa verið gerðar kvikmyndir eftir sögum hans en fæstar þeirra náð vinsældum. Einna helst virðast myndir sem vísa óbeint til hans verða vinsælar, t.d. Event Horizon og In the mouth of madness, báðar með Sam Neill í aðalhlutverki.
Af hverju ætli sögur hans lifi svona góðu lífi meðal hrollvekjuunnenda? Ég tel að fyrir því séu tvær ástæður. Í fyrsta lagi þá var Lovecraft með afar frjótt ímyndunarafl og virðist hafa átt auðvelt með að sjá hið hryllilega fyrir sér. Það voru hvorki vampírur, varúlfar, draugar eða nokkur af hinum þjóðsagnakenndu verum sem jafnan einkenndu klassískar og gotneskar hrollvekjur þess tíma, heldur var hryllingur hans upphaflega meira í ætt við Poe og Algernon Blackwood. Svo þegar hann tekur að þróa Wierd-fiction þá breyttist hið hryllilega í ævafornar og illgjarnar verur utan úr geimnum, sbr. Cthulhu. Þannig gátu runnið saman í einni sögu hrollvekja, fantasía og vísindaskáldskapur. Ég held að hann, ásamt Poe o.fl., hafi þannig skapað nútímahrollvekjunni rými til að verða byggðar á einhverju öðru en klassískum og þjóðsagnakenndum hryllingi, hið hryllilega gat komið að innan (sbr. Tell-tale heart eftir Poe og Dr. Jekyll & Mr. Hyde eftir Stephenson), verið utanaðkomandi (sbr. Call of Cthulhu) eða eitthvað sem maðurinn hafði sjálfur skapað (sbr. Frankenstein eftir Shelley) og þaðan af verra.
Í öðru lagi þá eru sögur hans í senn myndrænar og frásagnarstíllinn góður. Ég held að fæstir sem lesa t.d. Call of Cthulhu eigi erfitt með að sjá fyrir sér litlu leirmyndina, trylltan dans sértúarsafnaðarins í mýrlendinu við New Orleans eða heimsókn norska sjómannsins til R’lyeh. Lesandanum er sagt frá þessu í marglaga frásögn, þannig hann fer sífellt dýpra inn í frásögnina (nokkuð sem kvikmyndaunnendur ættu að kannast við úr myndinni Inception), þ.e. fyrst heyrum við af prófessornum, sem heyrði frásögn Legrasse rannsóknarlögreglumanns. Síðan fær aðalpersónan dagbók í hendur og þar leynist næsta frásögn. Þannig kynnist lesandinn hryllingnum í gegnum tvær frásagnir, fyrst af rannsakandanum og svo því sem hann les. Og allt sett frá á þann máta, í gegnum ríkan orðaforða og ofhlaðinn texta, að auðvelt er að sjá atburðina renna fyrir hugskotum sér.
Sú saga sem ég held hvað mest uppá eftir Lovecraft er The Thing on the Doorstep. Í þeirri sögu er hann ekki fást við illar geimverur, heldur manneskjuna sjálfa. Sagan er kannski öllu hefðbundnari miðað við annað sem hann hefur lét frá sér, en þar koma fyrir illur seiðskratti, femme fatale og aðalpersóna sem hefur framið morð, en er að reyna réttlæta það fyrir sjálfum sér. Sjálf er hún á geðsjúkrahúsi, dæmd til að eyða árum sínum þar. Ef þú hefur ekki lesið söguna, mæli ég eindregið með henni.
Lovecraft, sem átti afmæli í gær, þann 20. ágúst, hefur haft mikil áhrif á mig sem höfund. Ég held að það dyljist engum sem les sögurnar mínar og kannast eitthvað við Lovecraft. Mér þykir vænt um sögurnar hans og þrátt fyrir að hafa lesið þær margar aftur og aftur, þá kemur enn fyrir að ég dragi fram einhverja sögu eftir hann og lesi áður en ég fer að sofa, sérstaklega þegar tekur að hausta og nóttin fer aftur að verða dimm og drungaleg.