Höfundarnir okkar
Höfundarnir okkar eru sístækkandi hópur og við erum alltaf að leitast eftir því að bæta í þennan flotta hóp.
Ágúst Borgþór Sverrisson hefur jafnframt fengist við sagnagerð árum saman og sent frá sér fimm smásagnasöfn og eina skáldsögu. Næsta bók hans er væntanleg í haust. Ágúst Borgþór starfar ennfremur sem þýðandi og textasmiður hjá Skjal – þýðingastofu ehf. Hann er giftur, tveggja barna faðir og býr í Vesturbænum.
Einar Leif Nielsen er fæddur í Reykjavík og uppalinn í vesturbænum. Hann varð stúdent frá Menntaskóla Reykjavíkur árið 2000 og útskrifaðist með B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Eftir það lá leiðin til Danmerkur í framhaldsnám en þar lauk hann M.Sc. prófi í hagnýtri strærðfræði árið 2006. Síðan þá hefur Einar starfað á Íslandi og lengst í fjármálatengdum störfum.
Howard Phillips Lovecraft (20. ágúst 1890 – 15. Mars 1937) – þekktur sem HP Lovecraft – var bandarískur rithöfundur þekktur fyrir hrollvekjur, ímyndunarafl og vísindaskáldskap. Hann naut ekki mikillar hylli í lifandi lífi en hefur verið af mörgum sagður faðir nútímahrollvekjunar. Hann skapaði m.a. óvættina Cthulhu sem hefur víða birst í poppmenningu nútímans, t.d. í lögum margar þungarokkssveita.
Jóhann Þórsson er fæddur í Keflavík árið 1978. Hann hefur búið víðsvegar um heiminn, meðal annars í Ísrael og Króatíu. Hann byrjaði seint að skrifa þó skaldskapur hafi lengi dvalið í hug hans og hjarta. Eftir hann liggja nú fjölmargar smásögur, og bók í smíðum. Jóhann skrifar aðallega á ensku en hefur einnig skrifað nokkrar smásögur á íslensku og þær verið birtar í tímarritum.
Kristján Már Gunnarsson er fæddur á Akranesi 1988 og útskrifaðist frá Háskóla íslands Með B.A í Sagnfræði og B.A í ritlist 2012. Hann hefur skrifað smásögur og handrit frá því að hann man eftir sér og er staðráðinn í að gera það að ævistarfi sínu. Flóttinn til Skýjanna er fyrsta skáldsaga hans en eftir hann liggja sögur í nokkrum smásagnasöfnum.
Þorsteinn Mar er fæddur árið 1978, íslenskufræðingur að mennt en starfar sem vefstjóri hjá Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni. Hann býr í Kópavogi ásamt konu og tveimur börnum. Hann hefur um árabil skrifað hrollvekjur, þá aðallega smásögur. Hann hefur unnið til nokkurra verðlauna. Sagan Milli þils og veggjar endaði í 3. sæti í smásagnasamkeppni Glæpasagnafélagsins og Mannlífs árið 2006, þar sem þemað var hryllingssögur. Þá varð sagan Margt er líkt með hjónum í 2. sæti í smásagnasamkeppni Glæpasagnafélagsins og DV sumarið 2011. Loks varð saga hans Rósa var í 1. sæti í ástarsagnasamkeppni Vikunnar sumarið 2010. Þorsteinn Mar hefur skrifað tvær bækur, annars vegar smásagnasafnið Myrkfælni kom út sumarið 2011 og fékk ágæta dóma. Hins vegar skáldsagan Þoka sem kom út vorið 2012.